Félagsvísindin og ég

Félagssálfræðiverkefni um líkamstjáningu sem skila átti í dag hefur frestast fram á föstudag. Það er ágætt því ég er ekki búinn með það.
Nýjasta viðbót skólabókasafnsins, Obedience to Authority: Current Perspectives on the Milgram Paradigm, hefur vakið áhuga minn. Hins vegar nenni ég ekki að lesa hana. Er þetta ekki einum of gegnumgangandi vandamál hjá mér? Það verður að teljast lélegt að hafa áhuga á bókum án þess að nenna að lesa þær.
En bókin er eigi að síður áhugaverð. Þetta er greinasafn eftir ýmsa fræðimenn, þar á meðal Philip Zimbardo sem framkvæmdi þá frægu tilraun sem kvikmyndin Das Experiment er lauslega byggð á, með rafloststilraunir Milgrams að viðfangsefni. Í stuttu máli gengu rannsóknir Milgrams út á að biðja þátttakendur um að veita manni sem þeir sáu ekki raflost ef hann svaraði spurningum rannsakenda vitlaust. Raflostin fóru stighækkandi með hverju skipti sem þau voru veitt og hæsta stig var um 10.000 volt. Ef þátttakendur neituðu að halda áfram var þrýst á þá að gera það með ýmsum hætti, svo sem að segja þeim að ef þeir héldu ekki áfram væri allt starf rannsakenda ónýtt. Við slíkar hvatningar og jafnvel hótanir héldu þátttakendur undantekingarlítið áfram, allt þar til hámarksstigi raflosts var náð, jafnvel þótt maðurinn sem þau voru veitt væri löngu hættur að gefa frá sér nokkur hljóð.
Rannsóknin, eins ógeðfelld og hún nú var, markaði tímamót. Niðurstöður hennar gáfu til kynna að allir gætu framið illvirki undir réttum kringumstæðum, og storkuðu þeirri hugmynd að nasistar hefðu upp til hópa verið illmenni, en ekki venjulegt fólk sem matað var á áróðri og ranghugmyndum uns það varð samfélagslega firrt. Í bókinni er litið yfir farinn veg, rannsóknir Milgrams skoðaðar í ljósi nútímarannsókna og vægi niðurstaðna hans fyrir vísindasamfélagið metið. Munu flestir áreiðanlega komast að því að rannsóknir þessar hafa gert fleirum gott en slæmt.
Kannski skrifa ég nánar um þetta síðar. Ég þarf að drífa mig í tíma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *