Ég leyfi mér í hroka mínum að fullyrða að ég myndi fremur deyja hinum ömurlegasta dauðdaga en láta sjást til mín róta í sorptunnum bæjarins. Hins vegar veit ég að margir kjósa hið gagnstæða. Þess vegna gengur það svo gjörsamlega fram af mér að sjá augljóslega vel setta menn með krumlurnar ofan í tunnum í dósaleit, að ég get vart orða bundist fyrir fyrirlitningu og ímugusti á þeirri herraþjóð ræflanna. Hvernig geta þessir mannhundar haft svo litla sjálfsvirðingu að þeir hreint og beint leyfi sér að vaða á silkihönskunum um skranfötur bæjarins eins og ekkert sé þeim eðlilegra? Öðru máli gegnir um fólk sem neyðist til óþurftarinnar svo það megi halda ylnum í kroppnum. En þessir trúðar á lakkskónum eru engu betri en ef pípuhattar og munnstykki færu í samkeppni við þurfalinga á betlmarkaðnum og þetta háttalag þeirra er í hæsta máta auvirðilegt, ef ekki svívirðilegt. Réttast væri að fleygja þeim á götuna, sem þannig lítilsvirða kjör þeirra sem minnstu flísina fá af hlaðborði þjóðfélagsins.