Mikið gæfi ég I (seinni færsla fyrir neðan!)

Mikið gæfi ég fyrir að menn rökræddu ekki eins og Friðbjörn Orri Ketilsson. Hann svekkir sig á fordómum gegn Bandaríkjunum og segir að fólk noti Íraksstríðið sýknt og heilagt til að dæma þjóðina. Það gæti verið rétt, að einhverjir alhæfðu um þjóðina útfrá því, en það gerir enginn með fullu viti. Ríkisstjórnina má gagnrýna fyrir það, en ekki þjóðina sjálfa, og þar erum við sammála. Svo segir hann:
Ég hafði enga vitund um hvernig þarna væri áður en ég fór þangað fyrst 19 ára gamall. Ég hafði aðeins lesið hagtölur, umfjallanir og annað um Bandaríkin og auðvitað hlustað á Bandaríkjahatur fólks hér á Íslandi um árabil.“
Alt saman gott og blessað með þetta, nema ég leyfi mér að fullyrða að raunverulegt hatur á Bandaríkjunum sé í lágmarki hérlendis. Hatur er fullsterkt orð. Svo segir hann:

Mikið gæfi ég II

Bandaríkjamenn eiga mjög stóra bíla sem kosta jafn mikið og meðal fólksbíll á Íslandi. Framleiðni er mikil í Bandaríkjunum vegna þess að hagkerfið er mjög frjálst. Það leiðir af sér að hver klukkustund skapar meiri verðmæti en t.d. í Evrópu. Því geta þeir unnið færri klukkustundir og notið meiri frítíma en samt haft góðar tekjur. Íbúar í dreifbýli eiga risastór hús rétt eins og dreifbýlisfólk á Íslandi. Þeir borða stóra skammta af mat þar sem matur er hlutfallslega svo ódýr að þeir hafa vel efni á miklu magni. Þeir setja á fót stórar sýningar, íþróttaleiki, skemmtanir ofl af þeirri ástæðu að þeir eru 280 milljónir að fjölda. Fólk verður að setja hlutina í samhengi og vera sanngjarnt í dómum sínum.“

Hananú. Maðurinn er búinn að dæma þjóðina alla útfrá hagkerfi landsins og er þarmeð kominn í þversögn. Það finnst honum sanngjarn dómur, eða hvað? Fyrst það er í lagi að dæma heila þjóð útfrá hagkerfi hennar, er þá ekki alt eins gott að dæma þjóðina útfrá þeim sem stjórna hagkerfinu, ríkisstjórninni, já eða andskotans seðlabankanum? Og er það ekki nákvæmlega það sem hann gagnrýndi í upphafi? Ég er nú hræddur um það. En öðru eins mátti nú búast við af frjálshyggjumanni eins og Friðbirni, sem setur peninga ofar öllu öðru.

Vinnublogg

Ég hef það á tilfinningunni að vinstri fóturinn á mér sé tímasprengja, einn daginn muni hann gefa sig (þá vonandi ekki á gilbarmi!). Ef svo verður þarf ég að ganga við staf, eins og Stefán frá Hvítadal. Það er töff. Því miður er ekki sérlega töff að vera eins og farlama gamalmenni með ónýtan fót. Þannig að ég er ekki beinlínis að vona að það komi til þess. En ég hugga mig við að ef svo kynni að fara þá er töff að ganga við staf. Ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. En að sjálfsögðu eru þetta bara grillur í mér. Ég geri mér alt af verstu mögulegu stöðuna í hugarlund.
Alt er með kyrrum kjörum í versluninni. Það er enda ekki hægt að búast við því að fólk nenni mikið að fara út úr húsi eins og veðrinu er ástatt, eða er ekki ennþá stormur úti? Kunningi minn sagðist ómögulega getað hugsað sér að vinna á gluggalausum stað, þegar ég hitti hann í vinnunni. Ég skil hann mjög vel.

Af fréttum

Er þetta grín? Er einhver virkilega svo heimskur að falla fyrir því að prentaðir hafi verið milljón dollara seðlar í fyrsta lagi, og það með mynd af Washington í öðru lagi? Mér finnst eiginlega að Ríkislögreglustjóri ætti ekkert að aðhafast. Þeir sem nógu vitlausir eru að falla fyrir þessu eiga það skilið.
Sumar þjóðir (ekki Íslendingar samt) kunna að mótmæla.

Grein og lestur

Grein mín, Ísland er ekki land þitt (sem skapaði enga umræðu í athugasemdunum, urg!), hefur nú birst bæði á Múrnum og á Vinstri.is. Á greinunum er blæbrigðamunur, vegna þess að Múrverjar leiðréttu greinina mína lítillega.
Vek annars athygli á því að á Halldór Laxness les sögu sína Paradísarheimt í Útvarpinu á hverjum degi klukkan tvö. Þeir sem misstu af fyrstu þremur lestrum geta hlustað á þá á netinu.