Lestrarhlé mín og vitfirra

Ég er nærri því búinn með Sjálfstætt fólk. Ég hef verið í lestrarhléi í tvo tíma, enda þótt ég eigi aðeins rétt rúmar tuttugu síður eftir. Þetta kalla ég að fresta því að ljúka bókinni, og ég geri þetta alltaf þegar ég sé fyrir endann á bók, án þess þó að vita hvers vegna ég geri þetta. Ef ég tryði á mér duldar meðvitundir og þessháttar dularkrafta héldi ég því fram að innst inni langaði mig ekki til að klára bækur. En það langar mig. Mig langar til að klára bækur. Og trúi aukinheldur ekki á hindurvitni sálgreiningarinnar. Hinsvegar tengi ég bækur iðulega þeim tíma sem það tók mig að lesa þær og lít oft aftur til þeirra tíma, og minningin er alltaf svo góð. Lesturinn er alltaf fullkominn þegar honum er lokið og hann orðinn að minningu. Og ég fresta því að klára bækur til að freista þess að framlengja þá frábæru tíma lestrarins, enda þótt þeir séu ekki alltaf svo frábærir meðan á þeim stendur.

Með öðrum orðum: Ef þið voruð fyrst að fatta það núna að ég er klikkaður eða voruð búin að gleyma því – mannkindin er jú alltaf svo fljót að gleyma – þá þjónar þessi færsla tilgangi uppljóstrunar eða snöggrar endurminningar, sem á að leiftra fyrir hugskotssjónum ykkar í aðeins andartak, áður hún skellur á ykkur af fullum krafti og mylur sálarvitund ykkar mélinu smærra, ykkur sjálfsagt til mikillar angistar og gnístran tanna.

Með öðrum orðum: Já, ég er svona klikkaður. Hafið það fyrir aðra áminningu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *