Vor yndislega kjarnorka

Mikið er gott að við beisluðum kjarnorku, fyrir utan það hvað hún er góður orkugjafi, þá er hún svo góð leið til að halda valdajafnvægi. Já, og svo er alltaf gaman þegar 270 kíló af plútoni hverfa eins og dögg fyrir sólu. Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að losa okkur við þau, þ.e. ef við einhverra hluta vegna vildum ekki gera úr þeim sprengjur.

Já, og tilvitnun dagsins: „Ýmsar getgátur eru uppi um hvað hafi orðið um plútoníumbirgðirnar …“

Örbirgð

Ég sé eymd í hverju horni
í hverjum kima sé ég sorg.
Á göngu sé ég svartstakk
sín vonbrigði bera á torg.

Í augum sérhvers er angist
og eilífðar nístir hvern mein.
Í vondri sem þessari veröld
vér vargbitin stöndum ein.

Í vetrarins húmi þeir hírast
við húsgafl sér orna’ undir feld.
Þeir hafa’ eigi viður né væri
né vonir né hugsjónaeld.

Hverfa mun lífið úr lúkum
ljábitnum manna vors lands.
Því hver geldur þeim fyrir gullið
sem ginnt var af þeim fyrir sand?

Óþolandi

Manni hefnist fyrir að fara fyrr að sofa en ætlað var. Hefði ég farið í háttinn stundvíslega klukkan tíu væri ég álíka vakandi og lík. Þess í stað er ég vakandi í eirðarleysi, óhamingjusamur og dauðþreyttur. Já, manni hefnist.

Ég var sofnaður kortér í tíu, kortéri á undan áætlun. Fimm mínútum síðar vakna ég við háværar samræður þriggja manna fyrir utan húsið mitt. Hafi það ekki eyðilagt allt þá hringir síminn sex mínútum síðar. Ég hef ekki getað sofnað síðan, þrátt fyrir lítinn svefn undanfarið. Ég veit hreinlega ekki hvað ég á af mér að gera. Gráta kannski?

Síðustu dagar mannkyns runnir upp

Jesús almáttugur, hans blessaða blóð, vor heilagi hái faðir!!! Nú þegar tavaríssj Kári Páll Óskarsson hefir lært að setja voðamyndir af þessu tagi inn á síðu sína, og farinn að ræða um afturhaldsstofnanir miðalda, þá er ekki langt í að einherjar og óvættir eldi grátt silfur á götum úti. Ég er uggandi um framtíðina. Hvað ef hann tekur upp á að fjalla um æfintýrið fransósíska um snákaprinsessuna?!

Draumráðningar og Freud

Andri bróðir sagði mér áðan að bekkjarbróður sinn hefði einhvern tíma dreymt að hann væri að borða loðið bjúga. Sá hefur að sögn bróður míns ekki viljað borða bjúgu síðan. Hann Freud vinur minn hefði ekki verið lengi að ráða í þetta. En sjálfur læt ég staðar numið hér.