Jólastress

Nú eru allir í jólastressinu að kaupa gjafir og almennt havarí. Sjálfur er ég að upplifa mitt fyrsta jólastress, aðeins að litlu leyti hvað gjafir varðar raunar. Mitt jólastress felst einkum í peningaleysi til að kaupa gjafir, svo og tímaskorti. Ég mun ekki hafa neitt voðalega mikinn tíma fyrir sjálfan mig þessi jólin og er það margþætt vandamál. Fyrst er það Þorláksmessuvinnan, sem þegar hefur eyðilagt fyrir mér margt sem ég hefði heldur viljað gera. Næst koma ýmis jólaboð svo og eitt áttræðisafmæli, það síðarnefnda er mér raunar bæði ljúft og skylt að mæta í. Þar ofan á leggst kvöðin af mestu ritgerðarsmíð minni til þessa, sem á að fjalla um upphaf og þróun katólskrar kirkju með hliðsjón af samfélagslegum áhrifum hennar. Raunar hef ég misst allan áhuga á efninu og ætla að freista þess að fá því breytt. Það er mun fremur við mitt hæfi að skrifa um menningarsögu, þá sérstaklega um íslenskar bókmenntir. Aukinheldur er ég að vinna að því að skapa jarðveg fyrir útgáfu ljóðabókar eftir sjálfan mig, svo og að ýmsu öðru. Að lokum fer ég til Finnlands 3. janúar á ráðstefnu og kem aftur 10. Að því er nokkur undirbúningsvinna, vinna meðan á stendur og vinna eftir að heim er komið. Já, ekki hreint amalegt sjálfskaparvíti, eða sjálfskaparhimnaríki, eins og Emil myndi segja.

3 thoughts on “Jólastress”

  1. Ef þú átt lítinn pening til jólagjafakaupa, keyptu þá bara ódýrari gjafir. Það er hægt að finna fínar gjafir á góðu verði, aðallega bara að hafa þær skemmtilegar, það er, jú, hugsun sem gildir. Þá mæli ég sérlega með fornbókabúðum.
    Kannast við það, að mörg partý og þess háttar séu að gerast á sama tíma, og aldrei skemmtilegt að þurfa að velja á milli. Í þínum sporum myndi ég reyna að taka öllu með stóískri ró, en krydda það einnig með smá epíkúrisma. Gera það sem maður getur, ganga í það og slappa af. Theoretískt ætti þetta að vera tíminn sem maður ætti minnst að vera að stessa sig. Ég er viss um að þú munt semja fínustu ritgerð.

  2. Nú, gefðu þá bara heimatilbúinn leirkarl eða e-ð. Og verði hann eitthað ósnotur, láttu þá eins og þú sért mjög „viðkvæmur“ fyrir því: (titrandi röddu) „Það er allt í lagi þó þér líki hann ekki…“ Það mun tryggja að þeir sitja endanlega upp með hann, hehe. 😉

  3. Ég þyrfti minnst viku til viðbótar til að klára þetta alltsaman.
    Varðandi jólagjafir, það er ekki svo að ég eigi litla peninga til jólagjafakaupa, ég á enga peninga.
    Ég er samt minna stressaður í dag en ég var í gær.

Lokað er á athugasemdir.