Tilkynning um liðinn atburð

Næsta þriðjudagskvöld, strax eftir Gettu betur, verður haldin bókmenntahátíð í Skálholti. Þar munu nokkur valinkunn skáld lesa úr verkum sínum hlustendum til yndis og unaðsauka og efla um leið menningarvitund vora. Hefst hátíðin kl 20:30. Þau sem fram koma eru:

Andri Snær Magnason

Kristín Þóra Pétursdóttir

Aldís Guðbrandsdóttir

Gerður Kristný Guðjónsdóttir

Arngrímur Vídalín Stefánsson

Kári Páll Óskarsson

Halldór Marteinsson

Hallgrímur Helgason

Þetta gekk vel, eiginlega vonum framar. Dóri og Kári voru góðir að vanda og Andri Snær fór á kostum. Það hríslaðist um mig vanlíðanin undir lestri Gerðar Kristnýar og þær Aldís og Kristín Þóra komu reglulega á óvart. Hallgrím hafði ég heyrt áður og hann var engu síðri nú en þá. Ætli ég verði ekki að minnast aðeins á sjálfan mig í leiðinni, mér gekk sæmilega. Ég sé raunar að tvö ljóðanna féllu ekki alveg í kramið. Þau verða ekki notuð aftur, hvort eð er illa hugsuð. Ég veit raunar ekki alveg hvað mér á að finnast um kvæðin mín lengur, hef fengið þannig gagnrýni á bókina mína að ég er hættur við að reyna að koma henni á framfæri í núverandi mynd. Eða eins og einhver sagði, ég á eftir að taka út vissan þroska, þá kannski kemur þetta. Ætli galgopinn þurfi ekki að kyngja ráðleggingum sér eldri og viturri manna.

Til hvers var sofið?

Ég lagði mig og tæpum tveimur tímum seinna vaknaði ég fullkomlega ósofinn, kaldhæðnislega sem það hljómar. Það er aðeins eitt verra og það er að vakna við hliðina á Gunnari Birgissyni. Raunar, þegar ég hugsa út í það, þá er margt verra en að vakna ósofinn.

Wovon mann night sprechen kann …

Ég skrifaði tvær persónulegar færslur í röð, henti báðum. Stundum er betra að þegja en bera vandamál sín á torg. Mönnum er hvort eð er engin náðarbjörg í að úthella blóði sínu á internetinu. Nema þeir vilji fá svona komment: Luv ur sight, pres_link fur penis enlargment.

Gerviþreyta

Mér líður eins og ég hafi ekki sofið í marga daga. Það er ekki öldungis rétt, ég hef lítið gert annað undanfarið. Ég hef greinilega ekki fengið nema ráðlagðan hámarksdagskammt af kaffi í dag, skömm sé að því, fyrst innistæðulaus þreyta sækir að mér eins og skrattinn á hæla Sæmundi. Sólarhringurinn er of stuttur manni sem finnst gott að sofa.