Ef við gefum okkur að öll trúarbrögð séu í eðli sínu röng fáum við þá niðurstöðu að Islam sé rangt. Ef við gefum okkur það ennfremur að miðstýrðar trúarstofnanir gefi sanngjarna mynd af trúarbrögðunum sem þær kenna sig við, og að leiðtogar miðstýrðra trúarstofnana séu ótvíræð málpípa allra meðlima, fáum við ekki aðeins þá niðurstöðu að tjáningarfrelsi sé illa séð í Islam, heldur það einnig að múslimar séu upp til hópa ofstækisfullir og hati vesturveldin. Ef við göngum enn lengra og gefum okkur að tjáningarfrelsinu fylgi engar haftir, að hver og einn hafi frelsi til að segja skoðun sína, burtséð frá því hvort hún er grundvölluð á uppruna, menningu, trú eða litarhafti fólks, þá fáum við þá niðurstöðu að Jyllandsposten hafi ekki aðeins verið í fullum rétti þegar þau birtu myndir af Múhammeð, meðal annars í gervi hryðjuverkamanns, heldur hafi það beinlínis verið skylda þeirra vegna þess að Islam er rangt, heftandi og ofstækishvetjandi. Ég vona að þessar forsendur séu ekki öllum jafn gefnar.
Ég veit til þess að hér á landi starfar hópur vantrúaðra með það að markmiði að útrýma trúarbrögðum með upplýsingu, en ekki veit ég til þess að sá hópur hafi nokkru sinni farið af þeirri leið sinni. Þeir gefa sér að öll trúarbrögð séu í eðli sínu röng. Það geri ég einnig, ólíkt þeim læt ég mér hinsvegar í léttu rúmi liggja hverju aðrir vilja trúa. Þó er ég þeirrar skoðunar, að skuli einhver leið valin til að ráðast gegn trúnni, þá sé það upplýsingarleiðin, ekki blindhögg og svívirðingar. Því hef ég ekkert út á Vantrú að setja. Nema mér einfaldlega skjátlist um þá. En það heldur því vonandi enginn fram, að myndbirting Jyllandsposten hafi verið leið upplýsingarinnar.
Mjög margir virðast taka þann pól í hæðina, að fyrst allt leiki á reiðiskjálfi í þeim múslimaríkjum þar sem klerkarnir hafa hvað mest völd, þá hljóti hinn almenni borgari að vera líkt ofstækisfullur og málpípa sín. Þeir hinir sömu sæu ef til vill ekki samlíkinguna, ef væru þeir spurðir út í Hitlersþýskaland, hvort hinn almenni borgari hafi verið líkt geðveikur og kanslari sinn, og þeir segðu nei. Og auðvitað segðu þeir nei. Lengi var það almennt talið að gervöll þýska þjóðarsálin væri gegnumsýrð og hamstola af hatri sínu á gyðingum, en það er ekki rétt. Máttur valdsins eru tvö lykilorð í þessu sambandi. Ég held ég þurfi ekki að útskýra það neitt frekar, en vísa í fyrri umfjöllun mína um rannsókn Stanleys Milgrams á hlýðni við yfirvald. Honum tókst að láta 65% þátttakenda í rannsókn sinni drepa mann með banvænu raflosti. Það voru almennir borgarar. Það voru Bandaríkjamenn. Það þurfti aðeins mann með bindi í hvítum slopp. Settu það í hrærivél ásamt helvíti, heilagleik og allri þinni félagsmótun og sjáðu hvað þú færð.
Enn aðrir, og jafnvel hinir sömu, vilja vernda rétt sinn til að svívirða fólk óforvarendis á þjóðernis- og menningargrundvelli. Enn aðrir ganga svo langt að nota heilu kaffihúsaferðirnar til að iðka þann rétt sinn, sem þó getur verið refsiverður gagnvart lögum. Gagnkvæm virðing er nokkuð sem ég hef tileinkað mér og gott væri ef fleiri gerðu. Gagnkvæm virðing fyrir ólíkri menningu og ólíkum trúarbrögðum, skipti þau okkur þá nokkru máli, er það sem til þarf. Það sem er óþarfi, aftur á móti, er að svívirða náungann til þess eins að svívirða hann, kalla það svo iðkun á tjáningarfrelsi, bæta því jafnvel við að við erum nú einu sinni í stríði við hann í nafni frelsisins, eða erum við kannski á móti frelsi? Það þarf kannski að segja sumum það tvisvar, að svívirðing sem beinist gegn menningarheimi múslima kemur öllum aðilum sérstaklega illa einmitt núna, vegna þess að það er stríð í gangi milli Bandaríkjanna og vissra hópa múslima. Það er að segja, það kemur öllum illa, nema Bandaríkjaforseta og klerkunum. Allt þetta mál hefur aðeins reynst vera olía á ófriðarbálið sem þegar var ríkjandi.
Burtséð frá því hvort nokkur hafi raunverulega móðgast, hvort þetta sé tylliástæða eða ekki, þá er gagnkvæm virðing það sem til þarf. Gagnkvæm virðing og þá fyrst er hið rétta stríð unnið.
„Illt er goldið í sömu mynt, en sá sem fyrirgefur og mannbætir þannig syndarann hlýtur laun frá Allah. Hann leggur enga ást við hina ranglátu. Ekki er unnt að áfellast þá sem verja sig séu þeir ofríki beittir, en þung er sök þeirra sem níðast á náungum sínum og hafa í frammi ójafnað og yfirgang. Þeirra bíður hörð refsing. Að þreyja þolgóður og fyrirgefa er kjarni hins góða.“
Kóraninn, 42. súra (40-43).
Það er þá spurning hvort æsingurinn sé Kóranskt réttlætanlegur.
Ég tek loðhúfuna ofan fyrir þér fyrir afbragðs grein. My feelings exactly, og gott um betur. Ég hvet þig til að koma þessar grein víðar að og hafa samband við blöðin.
Var það þessi tilraun Milgrams sú sama og var vísað til í V for Vendetta? Konan sem sagði frá þeirri tilraun lýsti henni eins og þú, nema að hún sagði að „fórnarlambið“ hefði verið leikari, en þeir sem gáfu raflost hefðu ekki vitað það, og talið sig vera að drepa hann með raflostinu. Skilrúm á milli. Þeir hefðu haldið áfram, þrátt fyrir örvæntingar óp „fórnarlambsins“, einmitt vegna þess að maður í slopp hefði sagt þeim að hækka strauminn. Nú velti ég fyrir mér hvort þetta sé sama rannsókn, einhver önnur sem gerð var í raun, eða hvort þetta er skáldað, til að vísa til raunverulegra rannsókna, sem hún svipaði til.
*henni svipaði til. Afsakið nefnifallssýkina.
Sama tilraun.
Ég ætla ekki að birta greinina annarsstaðar.