Meira af Sumarljósi

Þessi umsögn fangar betur en hin það sem ég upplifði gegnum lestur bókarinnar. Það er þessi tilfinning um eilífð, lífið var byrjað áður en bókin hefst og því er ekki lokið þótt bókin sé búin. Hann minnist líka á millikaflana, þeir eru mikilvægir, einmitt eins og hann orðar það, þorpssálin, það sem bindur bókina saman. Ekki einu orði minnst á rúnk. Samt vantar margt þarna inn í. Ég ætti kannski bara að byrja á fyrirlestrinum áður ég felli haminn.

Af fyrrverandi borgarstjóra

Mér brá talsvert í brún nú á dögunum þegar ég sá Þórólf Árnason spígspora um anddyri Laugardalslaugarinnar í einhverju því mesta hallærisúníformi sem ég hafði nokkru sinni séð. Svo fór fyrir borgarstjóranum, hugsaði ég, orðinn að sundlaugaverði. Já, hátt er fallið.
Í miðri þeirri hugsun hleypur Þórólfur út eins og það hangi einhver á köðlunum, ef væru nokkrir kaðlar á bílaplaninu, og hverfur saman við síðdegisrökkrið og rigninguna. Það var þá sem ég áttaði mig á því að hann er ekki sundlaugarvörður, heldur skokkari. Ekki grynnkaði mjög á samúðinni við þá uppgötvun.

Sumarljós og svo kemur nóttin

Var að ljúka við Sumarljós og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman. Afskaplega falleg bók en sorgleg, ljúfsár eins og lífið, „sem virðist stundum fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu“; ljóðræn, myndrík, litrík. Mæli með henni við alla sem hrífast af lýrík óbundins máls og blæbrigðamiklum stíl.

Hér má svo finna öllu ítarlegri umfjöllun um bókina.

Uppfært kl. 14:12
Eftir að hafa fyrst rétt í þessu lesið téða umfjöllun um bókina verð ég að setja út á hana. Fyrir það fyrsta: Sjálfsfróun skiptir engu máli fyrir bókina, ótrúlegt að manneskjan hafi endilega viljað minnast á það í ritdómi, bara vegna þess að ein persónan er sögð rúnka sér einu sinni í viku. Kannski fannst henni það mikilvægur punktur, því eins og hún segir sjálf: „Það er töluvert um sjálfsfróun í bókmenntum samtímans“. Það má vel vera, en ekki í þessari bók. Aukinheldur finnst mér það enginn gæðastimpill á bók að hún fjalli að stórum um sjálfsfróun. En ég er líka á skjön við tíðarandann.

Annað: Hún klúðrar titli bókarinnar, kallar hana á einum stað Sumarhús. Það verður að teljast ansi lélegt. Það er ekki mark takandi á fólki sem man ekki hvað bókin heitir sem það var rétt í þessu að lesa.

Þriðja (sem er raunar bara leiðindi af minni hálfu): Ritdómurinn nær aðeins yfir helminginn af því sem mér finnst mikilvægt að komi fram í umfjöllun um þessa bók. Hann klórar í yfirborðið, bókin er dýpri en þetta. En ég hef svosum mitt eigið tækifæri, flyt fyrirlestur um bókina á föstudaginn. Kannski birti ég hann hér ef mér finnst hann nógu góður.