Lag dagsins

Lag dagsins er Exit Music (For a Film) með Radiohead, sem samið var fyrir nútímauppfærsluna á Rómeó og Júlíu með Leonardo DiCaprio og Claire Danes, sem mér finnst góð sama hvað hver segir, og hefur orðið þess valdandi að ég get ekki ímyndað mér Mercutio öðruvísi en sem blökkumann. Þ.e.a.s. myndin en ekki lagið.
Ég fékk áðan drög að góðum tíðindum. Langt síðan ég hef fengið svoleiðis. Síðast gekk það ekki eftir, ef mig misminnir ekki, vona að það verði öðruvísi í þetta skiptið.
Ps. Hver veit nema smetti mitt sjáist á göngum skólans í fyrramálið.

Skárri

Ögn upplitsdjarfari í dag. Það er vonandi að mér takist þá loksins að gera eitthvað af viti.

Uppfært kl. 17:32
Ég er að verða vitlaus á þessu verkefni. Öll hugsun er aukinheldur í hálfgerðum graut ennþá svo það gengur fremur hægt. Andinn hefur greinilega ekki fylgt líkamanum eftir í bata. Það var meira að segja erfitt að orða síðustu setningu. Nei, þetta er ekkert sældarlíf.

Uppfært kl. 20:34
Það virðist komin upp nokkuð sterk regla upp úr glundroðanum sem ég pönkaði niður í Wordskjalið milli dauða og meðvitundarleysis fyrr í dag. Guð má vita hvernig ég fór að því. Skrattinn hafi það ef mér er ekki ætlað að takast þetta.

Uppfært kl. 21:24
Strand enn á ný. Teljast fjórar blaðsíður annars ekki ágætt dagsverk hjá sjúkum manni?