Lóan er komin

Lóan kom víst í dag, eins og raunar sést hefur á veðrinu, sól logn og hlýindi. Litadýrðin yfir borginni um sólsetur var líka afar falleg.

Gærkvöldið sem ég eyddi í miðbæ Reykjavíkur var aftur á móti ekki fallegt. Einhver dansgólfsreykingadóni brenndi gat á vinstri hönd mína. Það er ekkert nema fávitaskapur að reykja í miðri þvögu af dansandi fólki. Enginn hótaði mér barsmíðum. Er það ekki einhvers konar met?

Ljóð dagsins er Vindur og vissa, úr Uppstyttum eftir Davíð A. Stefánsson, frá árinu 2003:

Hvort hægt er að vita
hvert leiðin liggur

hvert á að líta
og hvenær að líta undan

hvenær að beygja
og hvenær að beygja af

hvenær má gráta
og hvernig

hvenær að staldra við
og týna upp steina

hvort vindurinn ber mann af leið

og að vita aldrei
hvert leiðin liggur

til að vita hvort
vindurinn ber mann af leið

eða

hvort hann er leiðin.