Vídalín fer í messu

Vaknaði snemma (lesist fyrr en venjulega) og skrapp upp í Vídalínskirkju að hlýða á Vídalínsmessu Hildigunnar. Tónlistin var alveg frábær og einsöngvararnir tveir, Hallveig og Ólafur (systkini Hildigunnar?) voru bæði afar sterk. Gaman líka hvað þau lifðu sig inn í flutningin, hélt að Ólafur myndi hlaupa með kirkjubekkjunum af kátínu í Orði föðurins. Svo var heilsað upp á tónskáldið, nema hvað. Nú hefur hún enga afsökun til að heilsa ekki upp á mig næst þegar hún sér mig í IKEA, eða á bókasafninu, þar sem horfur eru á að ég starfi í sumar.

Það er alltaf dálítið vandræðalegt fyrir mig að fara í kirkju. Þar sem ég er ótrúaður vil ég ekki taka þátt í hefðunum (þeir heita víst hræsnarar í Biblíunni, sem það gera) og tók því ekki þátt í altarisgöngunni (er það ekki annars katólskur siður?). Finnst alltaf hálfpartinn eins og ég sé einhvurs konar glæpamaður að sitja aðgerðalaus meðan aðrir biðja, signa sig og borða oblátur. Kannski er það bara ég.

Veðrið er fallegt en eilítið napurt. Spurning hvort maður reyni að gera eitthvað meira úr deginum eða norpi framan við tölvuna. Mér skilst ég hafi orðið á eftir með grein á Múrinn. Ég sem hélt ég ætti ekki að skila fyrr en um mánaðamótin. Svo bíða víst fleiri greinar eftir fæðingu sinni.

2 thoughts on "Vídalín fer í messu"

  1. hildigunnur skrifar:

    takk fyrir síðast og hlý orð 🙂
    Jújú, þetta eru systkini mín sem syngja, passar.
    Ég fór heldur ekki til altaris, fer aldrei, jafnvel vandræðalegra fyrir mig, verandi svolítið opinber persóna akkúrat þarna… Maður lætur sig hafa það.

  2. Arngrímur skrifar:

    Bara takk fyrir boðið, ég skemmti mér mjög vel! 🙂

Lokað er á athugasemdir.