Kringlusafn

Frétt í Hér&Nú: Pípari á Porsche! „Mig bara langaði í hann.“

Kringlusafn í fyrramálið, fyrsti vinnudagur. Ég mæti í bættum tveedjakka með lonníettur. Hver veit svo hvaða ævintýri munu eiga sér stað á Kringlusafni í sumar? Margt býr á bókasöfnum. Forrannsókn fer fram á næsta fulla tungli. Þá verður horft á kvikmyndina The Librarian: Quest for the Spear. Tagline myndarinnar: „He didn’t want to be a hero. He only wanted a job.“ Það eigum við sammerkt. Áreiðanlega læri ég margt af henni.

Fyrsta útlitsþema Bloggsins um veginn, eftir flutningana yfir á Kaninkuna, hugði ég að eilífu glatað þegar Palli skipti yfir í WordPress. Ég var afar hrifinn af því á sínum tíma, en nú þegar ég hef endurheimt það er ég ekki svo viss. Ég ætla nú samt að leyfa því að standa hér yfir nótt. Lesendur geta þá sagt skoðun sína á hvort útlitið þeim þyki betra.

Svaðilför og bókakaup

Í gærkvöldi klukkan 23:55 skrifaði ég, en fjarlægði um hálftíma síðar:

„… kisan þarf á dýraspítala í fyrramálið, bakvaktin neitaði að taka við henni núna. Meinið fannst rétt í þessu, það er vinstri afturfótur. Sársaukafullt augnaráðið þegar ég snerti á fætinum nísti mig í innsta stað, og samt virðist greyið ekkert þjást er hún gengur. Ég get aðeins vonað að það sé ekkert alvarlegt.“

Það reyndist ekki meira en svo að það er ekkert að henni, utan að mögulega er hún alvarlega breima. Ótrúlegt! Fyrir þá vitneskju, góð sem hún er, fékk ég að skrúbba hland af kettinum, svo mjög naut hún sinnar fyrstu bílferðar í búri. Hún verður aldrei sett í búr aftur, fjandinn fari því fjarri! Rúmlega fimmtán ára gömul fékk hún þó a.m.k. að fara fyrsta sinni í bað.

Eftir stríð í baðkerinu sem endaði með hundblautum ketti og blóðugum fingri í sprittvotri grisju hélt ég niður í bæ til að skipta tveimur bókum sem ég fékk í stúdentsgjöf. Keypti í þeirra stað The Globe Illustrated Shakespeare – Complete Works Annonated og Turninn eftir Steinar Braga (sem virðist við fyrstu sýn töluvert fallegri bók en Áhyggjudúkkur (menn farnir að gefa sénsa)). Þriggja binda verkið Íslensk tunga keypti ég ekki því það var búið að hækka aftur verðið á því. En þá gefst mér færi á að spyrja fróða lesendur, áður en ég kaupi það, hvort það sé ekki áreiðanlega allt sem það virðist vera – algjör snilld semsagt?

Sitthvað misgott

Fyrrum vinnuveitendur mínir hjá sænska auðvaldinu ætla að borga mér laun þann 1. júní. Ekki veit ég nákvæmlega hvenær ég vann mér inn þessa peninga, en ég tek því fegins hendi.

Svo hef ég uppfært stjórnkerfi þessarar síðu lítið eitt. Núna get ég gert neðanmálsgreinar ((Og sjá, sköpunarverkið er harla gott.)). Það geri ég af eintómum flottræfilshætti.

Úff, eftir u.þ.b. kortér fer ég með Kisu á dýraspítalann. Mikið kvíði ég fyrir.

Guð!

05.40.11 • Forsaga íslenskrar tungu • (5e) • Vor

Gotneskir textar og meginatriði gotneskrar málfræði með samanburði við norrænu; rúnalestur; valin viðfangsefni úr frumnorrænni málsögu.

Guð hve mig langar! En ég má ekki. Má ekki! Hvers eigum vér nýnemar eiginlega að gjalda?! Að ógleymdu:

05.40.24 • Goðafræði Snorra-Eddu • (5e) • Vor

Efni námskeiðsins er goðafræði í Eddu Snorra Sturlusonar. Verður einkum fengist við Snorra-Eddu frá heimildafræðilegu sjónarmiði, þ.e.a.s. gildi ritsins sem heimildar um norrænar goðsagnir og hinn heiðna arf og helstu vandamál þar að lútandi. T.d. verður hugað að hlutverki munnmæla og kvæða um goðin í ritinu og meðal helstu samanburðartexta eru ýmis eddu- og dróttkvæði sem fjalla um goðfræðileg efni. Spurt verður um varðveislu þess háttar efnis eftir kristnitöku og fram á daga Snorra, hugsanleg kristin áhrif (s.s. frá kristnum fræðsluritum miðalda), en þar að auki verða athuguð áhrif sjálfs höfundarins á efnið og tilgang Snorra með ritinu. Markmiðið er að kynna fyrir stúdentum grundvallarvandamál og aðferðir í rannsókn Snorra-Eddu sem heimildarrits um norræna heiðni og goðsagnir og mikilvægi hennar og sérstöðu á því sviði og fyrir forníslenska bókmenntasögu.

Ég tek andköf!

Nietzsche og ofurmennið

Fyrst ég minnist á Nietzsche er kannski ekki úr vegi að birta hér minn skilning á hugmyndum hans um ofurmennið.

Ofurmennið er ekki einhver einn maður, heldur hefur hver og einn burði til að verða ofurmenni, einhver sem getur tekið af skarið, mannkyni öllu til framdráttar. Í þessu sambandi segir Nietzsche að Guð sé dauður; maðurinn hefur komist eins langt og hann kemst gegnum trú sína á Guð. Maðurinn sé eini mælikvarðinn á sjálfan sig.

Að þessu leyti eru kenningar Nietzsches existensíalískar, en aldrei nasískar. Ofurmennið er ekki sterkur leiðtogi eins og fasistar hömpuðu, heldur sá sem hefur getuna og viljann til að fara lengra, í þágu framfara, sér í lagi á tímum þegar fólk er reiðubúið að halda sem fastast í úreltar kreddur (eins og fólkið í Svo mælti Zaraþústra, sem virðist hálf úrkynjað). Trúin á Guð er því ekki leiðin til framþróunar, heldur máttur einstaklingsins. Þetta er grundvallarexistensíalismi.

Og nei, existensíalismi á ansi lítið skylt með tilvistarkreppu.

Hættur

Ég les stundum Vantrú, en aðeins örsjaldan skil ég eftir athugasemdir. Það er vegna þess að ég er orðinn leiður á því hvað fólki hættir annarsvegar til að svara án þess að svara, hinsvegar oftúlka allt sem á undan er sagt. Einhverju sinni varði ég t.a.m. Nietzsche fyrir manni sem kallaði hann nasista. Sá svaraði um hæl að ég hefði rangt fyrir mér. Það voru nú haldbær rök.

Núna síðast mælti ég gegn sálgreiningu. Skyndilega er ég hlynntur ónauðsynlegri geðlyfjagjöf, einkum til barna, og orðinn forhertur og heilaþveginn krossfari gegn upplýsingunni í krafti sálfræðimenntunar minnar við Háskóla Íslands. Aukinheldur hef ég ekkert lesið mér til um Freud eða verk hans sjálfs. Allt er þetta rangt.

Ég afréð að svara ekki þessum rangfærslum. Öðru nær er ég hættur að skilja eftir athugasemdir á Vantrú, þar sem hinn almenni lesandi er of ragur til að birta skoðanir sínar undir eigin nafni og hættir til textaoftúlkunar á einföldum fullyrðingum, í stað þess að svara efnis- og málefnalega.

Á leið til menntunar

Annaðhvort er stutt skegg í tísku eða stjórnmálamenn eru hættir að nenna að raka sig. Dagurinn sem þingmenn mæta órakaðir og þunnir í Metallicabolum verður dagur til að minnast.

Naut alúðlegrar þjónustu kvennanna á nemendaskrá HÍ áðan. Kom þó á daginn að oss busum býðst ansi takmarkað kúrsaval svo myndin sem gefin er hér að neðan er skökk vægast sagt.

Fór post hoc með Kára á Vegamót þar sem drukkinn var bjór í blíðunni. Bjór er stóriðja stúdenta. Emil kom aðeins seinna. Þar var meðal annars rætt um listina og Lafleur og óþarft að taka fram að glatt var á hjalla, auk þess að Konungsbók greddukvæða og hvadfornoget barst í tal. Við erum nefnilega svo gasalega klárir og menntaðir eitthvað. Ja svei mér þá, ef Reykjavík hefur nokkru sinni verið fegurri en í dag!

Á fimmtudaginn verð ég svo geymdur í útlánadeild Kringlubókasafns. Alveg harðbannað að heimsækja mig á fyrsta degi, þegar ég er óreyndur og ótöff.

Morgunverður og H-skóli

ÁrnagarðurVaknaði eftir um þriggja tíma svefn til að keyra móður mína í vinnuna (vakti frameftir við að klára Draumalandið, eftir um sex vikna hlé vegna anna). Þá var ekki amalegt að koma við í hverfisbakaríinu og kaupa rúnstykki af bélvaða flagðinu því arna, sætu bakarísstúlkunni, sem táldregið mun hafa margan góðan drenginn. Þvínæst var keypt grænmeti, ostur og skinka. Með þessu drekk ég kaffi. Morgunverðurinn verður varla betri.

Ástæða þess að ég er á bílnum í dag er sú að ég nenni ekki að taka strætó upp í Háskóla. Það eru víst ekki allir tilbúnir að ákveða framtíð sína strax tveimur dögum eftir útskrift, en ég var búinn að ákveða það fyrir minnst þremur árum, jafnvel lengra síðan, ég bara man það ekki. Ekki búinn að vera utanskóla í heila tvo daga, onei. Ég held ég haldi mig við þetta fyrirkomulag í vetur:

05.40.00 • Aðferðir og vinnubrögð • (2,5e) • Haust • [ECTS: 5] • 2f
05.40.01 • Inngangur að málfræði • (5e) • Haust • [ECTS: 10] • 3f
05.40.21 • Bókmenntafræði • (5e) • Haust • [ECTS: 10] • 3f
05.40.03 • Íslensk hljóðfræði og hljóðkerfisfræði • (2,5e) • Haust • [ECTS: 5] • 2f
05.40.20 • Íslensk bókmenntasaga • (5e) • Vor • [ECTS: 10] • 3f
05.40.06 • Íslensk setningafræði og merkingarfræði • (2,5e) • Vor • [ECTS: 5] • 4f
05.40.24 • Goðafræði Snorra-Eddu • (5e) • Vor • [ECTS: 10] • 4f
05.50.18 • Íslendingasögur • (2,5e) • Vor • [ECTS: 5] • 2f
05.40.04 • Íslensk beygingar- og orðmyndunarfræði • (2,5e) • Vor • [ECTS: 5] • 2f

Undirstrikaðir kúrsar standa utan skyldunnar. Eins og glöggir lesendur taka eftir tek ég 15 einingar á haustönn en 17,5 á vorönn. Ákvað að prófa kerfið áður en ég geri eins og mér var ráðlagt, að hámarka einingafjölda per önn. Svo finnst mér dálítið leiðinlegt að hafa ekki rúm fyrir málsöguna strax á haustönn, eða íslenskt mál að fornu. Fannst réttast að taka grunnáfangana í málfræði áður en ég færi í virkilega djúsí stöffið. Þá verður næsti vetur bara þeim mun skemmtilegri!
Eitthvað segir mér svo að bókmenntafræðin verði fremur þungur kúrs, en mér er sagt að þyngsti kúrsinn innan sjálfrar bókmenntafræðinnar sé Straumar og stefnur í bókmenntafræði, og hann er ég skyldugur til að taka. Tek hann bara næsta vetur. Ó, Jesúspétur (hvers vegna er þetta ekki leyfilegt mannanafn, spyr ég), hve þetta er spennandi!

Stúdent

Í gær brautskráðist ég frá Menntaskólanum við Sund, eftir þriggja ára nám þar. Athöfnin mun hafa verið skemmtileg miðað við aðrar slíkar, Már Vilhjálmsson rektor reitti af sér brandara og ræðan hennar Hjördísar Öldu ármanns var öldungis prýðileg.
Ég hlaut þrjár viðurkenningar, fyrir framúrskarandi árangur í ensku (9,5), fyrir ágætt kjörsviðsverkefni (10) og fyrir framlag mitt í þágu skólans. Þrenn bókarverðlaun fékk ég fyrir þetta, Frelsið eftir John Stuart Mill fyrir ensku, Handan góðs og ills eftir Nietzsche fyrir kjörsviðsverkefnið Kennivald: Þróunarsaga Rómversk-katólsku kirkjunnar frá frumkristni til siðskipta (átti hana raunar fyrir) og Hálendið í náttúru Íslands fyrir félagsstörfin. Íslenskuverðlaunin langþráðu fékk ég ekki því ég klúðraði prófinu mínu. En það skiptir svosem ekki máli.
Gjafir fékk ég alltof margar, þá sem mér þótti vænst um fékk ég frá Sigurrósu Erlingsdóttur kennslustjóra og íslenskukennara mínum, bókina Engar smá sögur eftir Andra Snæ Magnason. Að sjálfsögðu varð ég vandræðalegur og þakkaði ekki nógu vel fyrir mig. Aðrar bókargjafir voru Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles (sem ég átti fyrir), Heimur ljóðsins, Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Perlur í skáldskap Laxness (henni skipti ég, finnst skemmtilegra að bara lesa sjálfar bækurnar), Íslenzkt orðtakasafn og Birtíngur eftir Voltaire, í þýðingu Halldórs Laxness útgefin 1945.
Sængurföt fékk ég, blóm, peninga, Grant’s skota og heimalagað rauðvín. Jakka og vesti hafði ég fengið fyrirfram og frakka. Eins og þið sjáið, alltof margar gjafir. Það er eiginlega bara vandræðalegt.
Eftir fremur fámenna veislu heima hjá mér var farið niður í bæ eins og lög gera ráð fyrir. Partíið sem varð ekki í Iðnó varð nú bara samt og þar hitti ég nokkra góða bekkjarfélaga, en ég staldraði ekki lengi við. Dottið var á pöbbarölt í góðra vina hópi, nokkrum hópum raunar því ég flakkaði á milli, og ekki var komið heim fyrr en um sexleytið í morgun. Og hvað segir maður þá? Þetta er búið.