Hamskiptingar og kynjadýr önnur

Ok litlu síðar tók hún sótt ok fæddi sveinbarn, þó nokkut með undarligum hætti. Þat var maðr upp, en elgr niðr frá nafla. Hann er nefndr Elg-Fróði. Annarr sveinn kemr þar til ok er kallaðr Þórir. Hundsfætr váru á honum frá rist ok því var hann kallaðr Þórir hundsfótr. Hann var maðr fríðastr sýnum fyrir annat. Inn þriði sveinn kom til, ok var sá allra vænstr. Sá er kallaðr Böðvarr, ok var honum ekki neitt til lýta. Böðvari ann hún mest.
-úr Hrólfs sögu kraka ok kappa hans (Böðvars þætti).

Frægar eru slíkar goðsögur af sveinburði undir óeðlilegum kringumstæðum, hér fæðast þrír. Þannig hafði borið til að faðirinn, Björn, var hamskiptingur fyrir álaga sakir. Á daginn tekur hann á sig bjarnarham og er nauðbeygður til að drepa fé fyrir konungi, föður sínum, en á næturna er hann maður. Það verður þess aftur valdandi að hann leggst í útlegð, en þó freistar hann þess að leita uppi ástmey sína, Beru Karlsdóttur, og fer hún á brott með honum þar að sem Björn hefur sest að í helli. Þá um nóttina kemur undir hjá henni. Þá verður Björn nokkurs áskynja:

Svá grunar mik, at banadagr minn muni vera á morgun ok munu þeir fá mik veiddan, enda þykkir mér ekki gaman at lífinu fyrir ósköpum þeim, sem á mér liggja, þó þat eina sé mér til yndis, sem vit erum bæði, en þó mun þvi nú bregða […] Þú munt sjá liðit á morgun, sem at mér sækir, ok þá ek er dauðr, farðu til konungsins, ok biddu hann at gefa þér þat, sem er undir bóg dýrsins vinstra megin, en hann mun því játa þér. Drottningu mun gruna þik, þá er þú ætlar í burt, ok mun hún gefa þér at eta af dýrsslátrinu, en þat skyldir þú eigi eta, því at þú ert kona eigi heil, sem þú veist, ok muntu fæða sveina þrjá, er vit munum eiga, ok á þeim mun þat sjá, ef þú etr af dýrsslátrinu, en drottning þessi er it mesta tröll.
-Sama rit.

Það var einmitt fyrir drottingar þessarar sakir að svo er ástatt fyrir Birni, hún lagði á hann álögin þegar hann neitaði að sænga hjá sér, vegna ástar sinnar á Beru. Sambærilegar hugmyndir um álög vegna ástríðu er algengt minni og má t.d. finna í Brennu-Njáls sögu, sbr. sambandsslit Gunnhildar drottningar og Hrúts Herjólfssonar:

Hún tók höndum um háls honum og kyssti hann og mælti: Ef eg á svo mikið vald á þér sem eg ætla þá legg eg það á við þig að þú megir engri munúð fram koma við þá konu er þú ætlar þér á Íslandi að eiga en fremja skalt þú mega við aðrar konur vilja þinn.
úr Brennu-Njáls sögu.

Eins og sést á fyrstu tilvitnun komst Bera ekki undan því að kyngja því, ásamt fleiru, að örlögin láta ekki að sér hæða. Hún fæddi þrjá sonu sem spáð var, en álagabundið kjötið hafði kyngimögnuð áhrif á líkamsbyggingu tveggja þeirra. Merkastur þeirra er ef til vill Elg-Fróði, vegna þeirrar skírskotunar sem nafn hans hefur haft síðar, þ.e. þess samheitis sem orðið elgfróði er orðið í íslensku máli yfir flestar furðuskepnur, sbr.:

Uppruni orðsins finngálkn er óviss samkvæmt Íslenskri Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal. Sumir vilja tengja fyrri hluta orðsins við svonefnt meyljón eða sfínx, eða þá hina fjölkunnugu Finna. Orðið elgfróði virðist stundum hafa verið notað yfir líkar skepnur. Í heilagra manna sögum segir:

„Þess háttar skrímsli kölluðu skáldin centaurum, það kalla sumir menn elgfróða“.
-Vísindavefurinn, svar við spurningu: „Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu?“

Kentár er skepna sem er maður að ofan og hross að neðan, oftast eru þeir bogfimir og vitrir (sbr. stjörnumerki bogmannsins, eða sagitarium). Umrætt finngálkn í Njáls sögu fær þó ekki neina sérstaka umfjöllun:

En fyrir austan Bálagarðssíðu átti Þorkell að sækja þeim vatn eitt kveld. Þá mætti hann finngálkni og varðist því lengi en svo lauk með þeim að hann drap finngálknið.
úr Brennu-Njáls sögu.

Strax í kjölfarið ferðast Þorkell austur í Aðalsýslu og vegur þar flugdreka. Ekki fer þó mikið fyrir útlitslýsingu á þessum kynjaverum, þótt mikið og hreystilegt afrek megi það teljast að vega tvö slík skrímsl í einni og sömu ferðinni.
Orðið finngálkn á við um, líkt og elgfróði, hinar ólíkustu samblöndur manna og eða dýra, sbr.:

Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.
Bókasafn Reykjanesbæjar [Jón Árnason I 611].

og:

… furðusagnakvikindi sem er maður ofan en dýr að neðan. Kunnustu furðuskepnurnar af því tagi eru svonefndir kentárar sem voru menn að ofan en hestar að neðan […] finngálkn [eru] í mannslíki að ofan en líkjast dreka að neðan.
-Vísindavefurinn, svar við spurningu: „Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu?“.

Finngálknið er hér viss útúrdúr, en vel sambærilegt elgfróðanum að fyrrgreindu leyti. Eitt er þó ótalið, en það eru líkindi getnaðarsögu Elg-Fróða og Mínótaurosar hins mínóska menningarskeiðs Krítar. Sú furðuskepna, nautsbolur á mannsneðriparti, kom þannig undir að kona Mínosar konungs Krítar, Pasífe, varð ástfangin af sænauti fyrir vélar Póseidons og gat með því þennan óskapnað. Munurinn felst í að í Böðvars þætti er það björninn sem bundinn er álögum, sem leiðir til vansköpunar barnanna, en í sögunni af Mínótaurosi Krítar er það konan sem lögð eru álög á, svo hún nýtur ásta með yfirnáttúrlegu nauti. Hugmyndir um möguleikann á slíkum genasamsetningum er mögnuð. Þórbergur Þórðarson, gott ef ekki, notaði orðið elgfróði til að lýsa sama fyrirbæri.

Fleiri sögur af kynjaskepnum mætti lengi upp telja, svosem goðsögur norrænnar goðafræði aðlútandi Miðgarðsormi, Fenrisúlfi, Hel og áttfætta hestinum Sleipni, sem aftur á sér draugalegri hliðstæðu í nykri þjóðsagna Jóns Árnasonar, mannýgum vatnahesti hvers hófar snúa aftur. Ennfremur má í þjóðsögum Jóns finna sögur af skoffínum og skugga-böldrum, marbendlum og hafgýgrum. En þessi kykvendi verða að njóta síðari tíma umfjöllunar á þessum síðum.