Fararmátar – íbúðamál

Ég svaf yfir mig í dag og hjólaði því í vinnuna. Það tók mig kortér, tuttugu mínútur ef talið er með að ég pumpaði fyrst í dekkin á bensínstöð. Yfirleitt hef ég þurft að bíða tíu til fimmtán mínútur eftir strætó (vegna þess ég neita að fara út í skýli skv. tímaáætlun aðeins til að missa af vagninum), sem síðan er rúmar tuttugu mínútur frá Sundlaugavegi upp í Kringlu. Það liggur því í augum uppi hvor er betri kosturinn.

Eftir vinnu fer ég að skoða íbúð, hvorki meira né minna. Við skulum ekki hlaupa hæð okkar í loft strax. Enn hef ég ekki séð íbúðina. Enn eru viss atriði sem er eins gott að verði á hreinu. Annars ætla ég mér ekki að svara fyrirspurnum um húsnæðismál mín í athugasemdunum að svo stöddu, ef einhverjum hefði dottið það í hug. Ég ætla mér ekki að reyna að segja fyrir um óorðna hluti.