Átti afar erfitt með að rífa mig framúr í dag. Það hafðist þó á endanum og ég gat fengið mér göngutúr í sólinni. Mér varð gengið fram á stórt og tígulegt hús neðar á Öldugötunni, eitt það flottasta sem ég hef séð hér í grenndinni. Svo auðvitað, ögn til hliðar við gatnamót Öldugötu og Garðastrætis, stendur Unuhús. Grjótaþorpið er án efa eitt fallegasta og mest heillandi svæðið í borginni.
Gegnum það lá leið mín, niður Grjótagötu, gegnum Aldamótagarðinn og yfir Austurvöll, þar sem fjölskyldur ferðamanna léku við börn sín og ánægðir kaffihúsagestir sátu við útiborð, drekkandi ýmist bjór eða léttvín.
Þar sem ég á enn eftir að kaupa mér kaffivél settist ég örskotsstund inn á Prikið til að fá mér sárnauðsynlegan kaffibolla, þaðan lá leið mín svo í Skífuna. Þar keypti ég mér nýju plötuna hans Thom Yorke, The Eraser, og Bogartmyndina The Desperate Hours. Mér líst ansi vel á þessa plötu, búinn að hlusta á hana hálfa og hún er bara nokkuð góð við fyrstu hlustun. Henni svipar nokkuð til Radioheadplötunnar Kid A, en þessi er samt algjör haustplata, en Kid A ísköld vetrarplata. Myndina með Bogart horfi ég líklegast á í kvöld, enda hef ég ákveðið að vera heima megnið af kvöldinu, kannski líta fyrst við í eitt, tvö, þrjú afmæli. Þá er þetta fyrsta Bogartmyndin mín á DVD. Hyggst koma mér upp veglegu safni.
Og mikið sækir Vesturbærinn í. Hvers vegna í ósköpunum flutti ég ekki hingað fyrr?