Veðrið var dásamlegt klukkan tíu í morgun þegar ég hljóp niður Túngötu í allsherjar óðagoti, hafandi sofið yfir mig og misst af strætó. Sólin streymdi fram af laufunum eins og gullregn yfir gangstéttarnar, fuglarnir sungu og tjörnin glitraði í átt til mín alla leið eftir Tjarnargötu inn á Kirkjustræti, hvar ég hljóp í humátt að Austurvelli. Hvergi bíll í sjónmáli – eins og það á að vera. Miðbær Reykjavíkur á sunnudagskjólnum, kaffiangan út af Brennslunni, yfirgnæfandi Apótekshúsið skýlandi leyfunum af Austurstræti frá mildheitri sólinni á heiðum himninum, Lækjartorg lifandi af fólki. Já, í alvöru! Þar stóð ég sneyptur í um þrjár mínútur og velti fyrir mér hvort það væri í raun og veru þess virði að fara í vinnuna – og svarið er: Nei, það var það ekki – og þá kom strætóinn.
Ég get samt ekki annað en verið í undir meðallagi sneyptur, því mér gafst loksins nægt tóm í gærkvöldi til að greiða úr óreiðunni í huga mér, koma örlitlu niður á blað, og lagfæra ýmislegt í bókinni minni. Í fyrsta sinn síðan í apríl get ég því sagt að ég sé að gera nokkurn skapaðan hlut við hana. Það nægir til að sólin skíni örlítið líka hér inni.