Bloggað úr vinnunni

Sem ég buðlast við að falla ekki í öngvit í gegndarlausri baráttu við hita og ógleði mæti ég í skóla og vinnu og þykist vera hress. Svitna viðstöðulaust í lófum og í andliti. Það veit ekki á gott.

Stend greinilega styrkum fótum í inngangskúrsinum að málfræði hjá henni Siggu Sig. Hef verið að fá góðar einkunnir og er vel kominn á leið með að koma mér í mjúkinn hjá henni líkt og hjá öðrum kennurum gegnum tíðina (mér er það einstaklega lagið). Í dag gaf hún mér nefnilega áritaða skýrslu með kveðju frá höfundum, um rannsókn sem hún lét gera á málnotkun gagnfræðaskólanema veturinn 1999-2000, og ég tók þátt í. Þessu komumst við að í fyrsta tímanum sem var kenndur. Gaman að því.

Í dag var farið í tíðir og horf. Get ekki annað en tekið undir með Höskuldi Þráinssyni að það eru bara tvær tíðir í íslensku. Hinar tíðirnar lýsa nefnilega mun fremur horfi en tíð.