Málfarið

Hátt uppi í háum skóla sat ég með háan kaffibolla í tíma þar sem ræddar voru háleitar hugmyndir um setningarliði og orðaröð. Í akademísku hléi brá ég mér útfyrir í stundarandakt með jafnvel hærri kaffibolla en áður og kveikti mér í sígarettu. Varð mér þá litið á skilti frá Íslenskum aðalverktökum, hverra gröfur og brjálsemdarmaskínur tröllríða nú öllu á háskólalóðinni við byggingu hinna tveggja háu þekkingarhofa. Á skiltinu stóð: Óviðkomandi aðgangur bannaður. Ætli stríðið sé þegar tapað?

Á biðstöðinni fyrir utan Félagsstofnun stúdenta má finna auglýsingu frá Glitnisbanka, hvar stendur: Fjármögnun atvinnuhúsnæða. Það er svo margt að þessu orðalagi. Nú, það er svosum hefð fyrir því að tala um fjármögnun, þótt ég sé kannski ekkert sérlega hrifinn af því. Nú er til dæmis KB-banki með slagorðið „Settu þér markmið og byrjaðu að spara!“. Fyrst þetta er hægt, þá væri kannski til fyrirmyndar ef Glitnir segði heldur: „Við fjármögnum atvinnuhúsnæðið“, ef bankinn á annað borð stundaði fjáröflun fyrir viðskiptavini sína. En það gera bankar ekki, þeir lána peninga, en þeir fjármagna ekki nokkurn skapaðan hlut. Kannski helst það væri Landsbankinn sem hefur fjármagnað t.a.m. ljóðabókaútgáfu og fleira í þeim dúr.

Nú, þetta er eitt, en hitt er svo annað, að ég er ekki einasta viss um hvort hugtakið atvinnuhúsnæði sé nógu tækt. Það finnst a.m.k. hvorki í Orðabók Háskólans né Íslenskri orðabók og hér gæti allt eins verið átt við hús sem er húsnæði að atvinnu (!) og hús undir atvinnustarfsemi. Þess vegna finnst mér að Glitnir hefði betur komið með eitthvað álíka banalt og „Alhliða húsnæðislán“. Ef áherslan þarf nauðsynlega að vera á húsnæði til atvinnustarfsemi mætti segja: Húsnæðislán undir atvinnurekstur. Eða eitthvað. Bara eitthvað annað en þetta óþolandi klisjukennda auglýsingamálfar, sem skilgreina mætti sem svo: Leiðindafrasar sem hitta eiga í mark en ENGUM dytti í hug að láta út úr sér í daglegu tali.

6 thoughts on “Málfarið”

  1. Ég kannast ekki við að Landsbankinn hafi fjármagnað ljóðabókaútgáfu. Hins vegar keyptu þeir nokkuð af seríunni Norrænar bókmenntir til að gefa bókasöfnum landans, sem vissulega auðveldaði þau útgáfumál öllsömul.

  2. Hahahah. Þú fékkst mig til að skella uppúr. Takk. Viltu döðlu?
    Er svona að reyna að halda þessu á léttu nótunum.
    Jæa. Afhverju skrifum við ekki jæa?

  3. Sæll Arngrímur. Já það er gaman að séu svona skemmtilegar ræður. Leiðilegt að ég skuli ekki vera enn ég er aldrei að vinna á miðvikudögum . Það geingur betur næst.

Lokað er á athugasemdir.