Upplesturinn

Já, upplesturinn í gær gekk þokkalega, við Emil og Kári lásum örfá ljóð af þvílíkri innlifun að fötin voru rifin af okkur í tryllingslegum fagnaðarlátum sem brutust út á eftir. Minnti sannast sagt á bítlamaníuna. Óvænta (óboðna) gestaskáld kvöldsins las svo upp úr höfundarverki sínu Stórum tárum og var uppátækið vitanlega óstinnt tekið upp af honum mér svo ég brást við á þann eina máta sem ég kunni, að rifja upp í hæversku minni óstaðfesta sögusögn frá Finnlandi sem ég hef einu sinni verið kýldur fyrir að halda á lofti. Ljóðið sem ég las upp í kjölfarið gæti svo vel orðið tilefni til frekari líkamsmeiðinga ef eiginmaðurinn fréttir.

Ljóð dagsins er WYSIWYG eftir Kára. Mig myndi langa til að fjalla eilítið um það frá mínum bæjardyrum séð en ég læt það vera að sinni (er alltof upptekinn við að lesa þessa grein eftir Einar Má). Læt nægja að segja að mér þykir það flott.

Út um minn glugga ég gugginn leit,
Fátt gaf þar að líta sem lifir.
Svívirta trjágrein bar við ský
Hrafnar tveir svifu yfir.

-Kári Páll Óskarsson.

One thought on "Upplesturinn"

Lokað er á athugasemdir.