Stormasamur dagur …

SjittÞegar ég vaknaði í morgun lék allt á reiðiskjálfi og kötturinn minn vældi ámátlega. Ég stökk framúr á brókinni, æddi fram og reyndi að átta mig á af hverju umgangurinn stafaði. Þar sat kötturinn rennblautur og nötrandi neðan við svalagluggann, í baksýn flugu reynitrén til og frá í tryllingslegum darraðadansi við storm aldarinnar. Húsagarðurinn lá brotinn á hliðinni, bílar flugu hjá.

Nú er kattasandurinn innandyra. Já, ég endasentist í loftköstum út í fimbulviðrið að sækja þetta, nærri búinn að drepa mig í leiðinni – rétt náði að stökkva inn um dyrnar áður en skýstrókur tók svalirnar mínar með öllu sem þar var. Allt til að bjarga mublunum. Eitthvert hlýtur hann að fara allur þessi matur sem kattarskepnan gúffar í sig dag hvern.

Keyrði þvínæst í vinnuna alls ótimbraður eftir vísindaferð gærkvöldsins. Eitthvað var Ölgerðin of heilög til að gefa okkur að borða og hefði ég þá betur verið lengur á málþingi Borgarbókasafns. Þar ku bæði hafa verið matur og drykkur í boði. Já, maður má víst þykja ansi fátækur ef maður tímir ekki að kaupa sér bjór á barnum og fer snemma heim fyrir vikið.
Nú, svo gekk allt á afturfótunum fyrripart vinnudags þar sem öllu rafmagni við afgreiðsluborðið hafði slegið út yfir nóttina. Svosem ekkert stórvandamál að handskrifa hvert einasta útlán, en mikið var ég glaður þá að hafa ekki drukkið meira kvöldið áður.

Storminn hefur lægt, en ég læt ekki blekkjast svo auðveldlega. Ég sé heilu bílana og hálfu kýrnar fljúgandi um í fjarska, þetta er auga stormsins hér í Vesturbænum.

3 thoughts on “Stormasamur dagur …”

  1. Haha, takk Magga mín 🙂
    Alveg sjálfsagt að setja saman fyrir þig lista af dönskum bókum sem þú gætir lesið, og hvað af þeim er til í Sólheimum.
    Já, Auðun, hún er læða og heitir Perla. Samt bara kölluð Kisa.

Lokað er á athugasemdir.