Stjörnuhrap

StjörnuhrapÞegar tekur að dimma á norðurhveli vaknar einhver ósjálfráð hvöt inni í mér sem krefst þess að ég vaki á næturna. Hvers vegna veit ég ekki.

Rétt í þessu sá ég stjörnuhrap en óskaði mér einskis. Líklega er það einn fárra snertiflata ofmetnaðar og metnaðarleysis, að óska sér undir stjörnuhrapi; maður væntir þess þá að óskin mikilvæga hljóti að rætast en gerir jafnframt ekkert í því.

Það var held ég í janúar 1997 að ég gekk heim af skólaballi í Laugarnesskóla, eftir að hafa í tvígang vangað við stúlku sem ég var skotinn í, undir stjörnubjörtum himni og óskaði mér fallegra hluta með viðvarandi bjarmann af halastjörnu Haileys fljótandi yfir. Ef til vill var það ofmetnaður að óska sér undir halastjörnu. Kannski hefði það verið metnaðarleysi að óska sér einskis.

Í það minnsta geri ég ekki ráð fyrir að sjá halastjörnu Haileys aftur á ævinni. En ef mig brestur þolinmæði eftir lífsins yndisemdum má þá alltaf bara bíða eftir næsta stjörnuhrapi. Þau eru ekki svo fátíð.