Það hljómaði fyndið þá

„Þá er þess væntanlega ekki langt að bíða að gerð verði úttekt á eldhúsinu mínu í Fréttablaðinu og fjálglega rætt um matseldarhæfileika mína. Þá geri ég kannski eins og bróðir minn gerði í DV fyrir hálfum áratug og lýg því að kókómjólk sé fastur liður í minni eldamennsku.“
Bloggið um veginn, 15. nóvember 2006.

Mér datt í hug að rifja þetta upp. Klukkan átta í kvöld hafði ljósmyndari Vikunnar lokið sér af við að mynda jólasteikina mína. Tímaritið kemur út á fimmtudaginn í næstu viku, viðtal og myndir. Ég eldaði ekki upp úr kókómjólk, en steikin bragðaðist vel engu að síður.

Ég þori ekki að spá fyrir um fleira, er hættur að spá fyrir um framtíðina. Hætti á toppnum.

Auteur

Þegar ég vaknaði upp af blundi um miðnætti var ég ekki viss hvort franska orðið ateur væri til í raun og veru, en ég var nokkuð viss um að íslenska sögnin aterja, sem dregin væri af téðu orði, væri það ekki. Hef nú komist að því að hvorugt er orðið til. Hins vegar fann ég franska viðskeytið -ateur án dæma eða merkingar, og nafnorðið auteur. Í draumnum kom orðið fram í kjölfar þess að smásaga varð að veruleika frammi fyrir augum mér. Þess vegna er ef til vill viðeigandi að einasta svarið sem ég hef fundið er franska hliðstæða orðsins rithöfundur.

Þess má einnig geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég vakna með afbakaða frönsku á heilanum.