Exhibisjónismi

Í kvöld sem önnur kvöld hélt ég út í hverfisverslunina, í leit að næringu fyrir hylkið mitt, til mótvægis við þá andlegu sem hugurinn nýtur beint í æð við lestur á námsefni.

Í búðinni var fyrir allskonar fólk, þar á meðal þrjú ungmenni. Voru það stúlka og tveir piltar – annar ógeðfelldari en hinn – og áttu þau í erfiðleikum með að velja sér örbylgjufæði. Fyrir hverja uppástungu annars piltsins bar sá ógeðfelldari hönd á móti af einstakri hraðmælgi, og í sérhvert skipti spurði stúlkan þann fyrri hvað hinn hefði sagt. Enda var ekki nokkur vegur að skilja hann.

Tveimur mínútum síðar hafði sá ófrýnilegri komið hönd sinni fyrir undir þveng stúlkunnar og var í óða önn við að löðrunga hana innanmunns með klofinni tungu, svo hvarvetna glumdu áfergjulegar stunurnar, sem þau veltu öllum hillum um koll af dýrslegri fróun í djöfullegum dansi darraðar.

Aldrei fyrr hefur mennskan verið jafn lágu verði seld, en hver veit, ef til vill var það ást við fyrstu sýn. Guð einn má vita hvernig farið hefðu leikar ef væru kjötborð í verslunum 10-11.

Af Bréfum til Sólu

Mig grunar að hinir hrifnæmu vildu helst ekki vita mikið um samband Þórbergs og Sólu áður en þeir lesa bréfasafnið, sér í lagi ekki hið eina réttnefnda Bréf til Sólu í allri sinni 70 blaðsíðna heift, sem af einhverjum ástæðum var ekki gefið út með hinum. Síst mun þeim sömu hugnast að kunna skil á svívirðilegum málalokunum áður en bréfin eru lesin.

Ég þekki til þessara atriða og sit því næsta gapandi yfir bréfunum. Hvað var maðurinn að hugsa? Halldór Guðmundsson tekur þó ekki eins djúpt í árinni og ég þegar hann segir: Þetta er ein af mörgum ráðgátum í lífi Þórbergs. Minna mætti það varla vera.

Mætti ég biðja um tuttugu ár í viðbót?

Ég fór í þrjá skóla í dag í þrenns konar erindagjörðum, þann sem ég nem við sem stendur og tvo sem ég nam við áður. Í þeim þriðja átti ég sérstakt erindi við fyrrum kennara minn sem síðar kenndi mér einnig að aka. Allt þrennt var með eindæmum ánægjulegt, gott ef sólin skein ekki í smástund.

Á leiðinni heim lenti ég svo í temmilega hörðum árekstri, eins og fyrir kaldhæðnislega bölvun. Vegna aldurs míns var málið fyrirfram tapað, en ég áttaði mig ekki á því fyrr en lögreglan mætti á svæðið að ég þyrfti að vera minnst fimmtugur til að vera tekinn alvarlega. Í ofanálag hreytti hinn aðilinn í mig ónotum í hvívetna, ég skyldi ekki reyna neitt kjaftæði bara vegna þess hún væri kona, eins og ég væri einhvers konar framsóknarmaður eða eitthvað þaðanaf verra.

Það er því óhætt að segja að dagurinn hafi tekið dýfu niðrávið einhversstaðar milli Norðurmýrar og Þingholta.

Litlu hlutirnir

Litlu hlutirnir skipta öllu máli. Sú afstaða hefur komið nokkuð sjálfkrafa til mín að undanförnu.

Um daginn leit himinninn svona út.

Degi síðar komu svölurnar aftur til Capistrano.

Mitt í þessu öllu virðist á flestum stöðum vera að birta yfir. Það er kraðak allt um kring en gangnasjónin fer að vissu leyti minnkandi.

Hvort ég finni mig knúinn til að tjá mig þannig að nokkur skilji er svo aftur spurnaratriði. Ég hef á tilfinningunni að sms-, mæspeis- og bloggvæðingin hafi að nokkru haft óafturkræf áhrif á samskiptamáta fólks.

Einn daginn mun væntanlegt par finna sig í þeirri aðstöðu að annað játi ást sína fyrir hinu, og það kemur upp úr dúrnum að hitt hafi lesið allt um það á moggablogginu.

Mars hefur hingað til annars verið fremur geðklofinn beggja vegna árstíða og veit það vonandi á gott vor. Hitt er svo ótengt að í gær var 119 ára afmælisdagur Þórbergs Þórðarsonar væri hann á lífi. Sömuleiðis var það 23 ára afmælisdagur Sigurðar Benediktssonar vinar míns, sem ennþá lifir samkvæmt nýjustu heimildum. Hamingjuóskir til beggja handa.

Hvor Islændinger kan best li' at købe

Sannarlega eru danskir dagar, og ekki aðeins í Hagkaupum. Í hönd fer át alvöru dansks lasagne, eins og hin danska herraþjóð eldaði fyrr á öldum, hverju skolað verður niður með Slots, uppáhaldsöli sérhvers sanns konungsholls Dana. Ekki síst vegna þess hversu ódýr hann er. Carlsbergrónar verði dæmdir landráðamenn og skotnir.

Það er dálítið sérstakt, svo vikið sé að öðru, að vakna upp dag einn og muna skyndilega eftir atburði sem gerðist nákvæmlega ári og degi áður, af því veðrið var nákvæmlega eins. Eins og hugræn ófærð deginum áður, vegna veðurs.