Óvænt heimsókn – sleggjudómar sem vænta mátti

Bankað var að dyrum hjá mér fyrr í dag og ég æddi til dyra með hugann hangandi útum annað eyrað. Ég rykki upp dyrunum og þar stendur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og kompaní. Mér varð orða vant. Ég gat ekki ímyndað mér erindið.

Heimurinn verður fljótlega eðlilegur á ný þegar Ingibjörg kveðst vera að kynna framboðslista Samfylkingarinnar og réttir mér bleðil, ég missi uppúr mér skilningsvana já. Skyldi hún vilja ræða það yfir kaffibolla?

„Svo,“ bætir hún við, „ætla ég að gefa þér eina rós að skilnaði,“ réttir mér hana og blikkar mig brosandi. Ég gat ekki annað en skellt aðeins uppúr. Þetta kom mér alveg að óvörum. Svo þakkaði hún fyrir með handabandi og við kvöddumst. Brosið sat límt á mér næsta kortérið. Þetta var þó frumlegra en að hringja.

~
Ég vona að húsin sem brunnu verði endurreist. Það skiptir engu máli hversu gömul húsin eru í raun og veru. Það er mikil saga í þessum húsum og það væri synd að glutra henni niður, sbr. nýja hótelið í Aðalstræti sem teiknað er upp eftir þremur húsum sem áður stóðu þar. Þar á meðal er Fjalakötturinn, eitt elsta kvikmyndahús Evrópu, ef marka má heimildargildi Margrétar Jónsdóttur. Sjálfsagt eru það þó ýkjur.

Ég er fokvondur út í Egil Helgason, eins og raunar alltaf þegar ég les svartagallsrausið í honum. Að þessu sinni er eins og Jónas úr Hriflu tali útum rassgatið á honum. Að hans mati voru Fröken Reykjavík og Kebabhúsið ógeðslegar sjoppur, Rósenberg bjórbúlla og Pravda úrkynjað lágmenningarplan. Slík er nú víðsýni þessa höfuðkverúlants Íslands.

Fröken Reykjavík var sjoppa eins og hver önnur, Kebabhúsið var besti skyndibitastaður Reykjavíkur og Rósenbergkjallarinn var menningarsetur með veitingaleyfi. Þar hef ég hlýtt á upplestra Braga Ólafssonar og Ingibjargar Haraldsdóttur meðal annarra, og tónlist Lay Low. Að hógværu mati Egils eru þau sjálfsagt öll úrkynjuð líkt og list þeirra.

Pravda var ef til vill ekki allra og enn síður hentaði hann mínum smekk. Slíkt gildismat myndi þó seint kalla á aðra eins gagnrýni, fyrir utan að Pravda hefur staðið fyrir ýmsum ágætum uppákomum á virkum kvöldum, t.d. djasstónleikum. Þar sem Agli finnst sjálfum gaman að hella sig fullan á börum er drykkjan væntanlega ekki burðarliður í gagnrýni hans á þeirri „lágmenningu“ sem þar þreifst. Þá er ekkert eftir til gagnrýni nema tónlistin sem þar er spiluð. Tímanna tákn, myndu einhverjir segja. Lágmenning, segir Egill. Það er gott að vita að sumir hafa gaman af að fægja fílabeinsturna sína.

~
Myndina hér að ofan tók Nína, sú flinka fótógrafíuflikka. Að kvöldi brunans buðu þau Skúli mér í mat til sín. Það var afar notalegt kvöld, gaman líka að eiga vini sem nenna að bjóða manni í mat. Um tíuleytið það sama kvöld sprakk heitavatnsleiðsla í næstu götu. Þá brenndust sjö. Gott að sama verður ekki sagt um brunann við Lækjartorg. Ef til vill hefði Egill Helga ekki verið jafn hrokafullur í yfirlýsingum ef kviknað hefði í þá um kvöldið og tugir farist í eldsvoðanum. Og þó, maður veit aldrei. Alltaf skal mannkertinu takast að koma mér á óvart.

7 thoughts on “Óvænt heimsókn – sleggjudómar sem vænta mátti”

 1. Er ekki nær að byggja aðeins stærra hús þarna á horninu, svo að það blasi ekki við grár gaflinn á Iðuhúsinu og það komi meiri heildarmynd á Lækjargötuna?
  Það er hægt að hafa kebabbúllu og bar þar samt sem áður. 🙂

 2. Ég verð að játa á mig visst óþol gagnvart þeirri stefnu að reisa sífellt stærri hús. Mér finnst það ekki síður hluti af bæjarmyndinni að húsin séu lágreist.
  Að byggja stærra hús er önnur leið og vissulega hafa báðar sína kosti. Ég er bara hræddastur um að byggð verði framlenging af Litlu-Manhattan og tónlistarhúsinu – helst eitthvað úr gleri sem skiptir litum. Vitandi af slíkum tendensum meðal arkitekta finnst mér öruggast endurreisa.
  En svo lengi sem menn halda sig við gamla byggingarstílinn mun ég seint geta kvartað, hvort sem þeir endurreisa gömlu húsin eða byggja ný. Upprisa Kebabhússins hlýtur svo aftur að vera hið sjálfsagðasta mannréttindamál.

 3. ef húsið er brunnið til grunna er það farið. basta. en sagan er og verður til og hluti hennar er að húsið brann árið 2007.
  þetta pravda hús var að mínu mati lágreist og ljótt margstagað grey og lítið eftir af hinu upprunalega í því. mér finnst að það eigi að byggja þarna fallegt hús í gömlum stíl. og fyrir alla muni ekki iðukennt moggahallardæmi.

 4. en pældu í greyið sálfræðinemunum og uppeldis-og menntunarfræðinemunum, pravda var barinn þeirra eins og celtic er okkar. hvað eiga greyin að gera núna?;)

 5. Það er fyndið til þess að hugsa að þau sem koma til með að kenna börnum okkar lífsleikni og æðrulaust meinlæti hafi sjálf verið langdvölum á Pravda. Eða á djömmehnöööh, eins og það mun heita í uppeldisfræðinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *