Í minningu

Skrifað þann 22. ágúst

Hvaða klisja er yndislegri en hrifnæmi háskólastúdentinn sem situr við fjórtánda kaffibollann að kvöldi til og les Nietzsche? Hann þarf ekki kaffið, það bara tilheyrir. Nietzsche á ekki að lesa fyrir fíluna fyrr en í nóvember, en hver getur beðið þegar hægt er að setjast á eintal við eilífðina N Ú N A ?

Ég var þessi karakter fyrsta haustið mitt í Háskóla Íslands, þessi sem mætti fyrstur í fíluna, las allt ítarefni (Nietzsche fyrstan), notaði frasa á við a priori alltaf þegar ég gat og gagnrýndi veðmál Pascals einsog ég væri eini maðurinn sem nokkru sinni hefði séð í gegnum það. Hefði íslenskan ekki heillað mest hefði heimspeki orðið fyrir valinu; þegar ég var ekki að kynna mér Clifford og James sat ég inni á Þjóðarbókhlöðu og lúslas Handbók um íslenskan framburð uns ég kunni hana utanbókar (og varði svo næstu árum í að leiðrétta framburð fólks).

Þetta er veiki sem heltekur mann og sleppir ekki svo glatt; hún hefst með þekkingarþrá en er fyrr en varir orðin að lífsstíl, sér í lagi fari maður að njóta einkennanna jafnmikið og sjúkdómsins (einkenni geta verið: leti við rakstur, aukin kaffidrykkja, langar ræður um póstmódernisma, tilgerðarlegar tilvitnanir í spekinga: „sagði ekki Spinoza, að …“). Ég hef gerst sekur um flest þetta og það verður partur af gamaninu að lifa sig inn í hlutverkið. Það er líka nauðsynlegt að hafa húmor fyrir náminu og sjálfum sér því umfram allt er þetta drulluerfitt. B.A.-nám er ógeðslega erfitt. Framhaldsnám ekki síður. Það þarf seiglu til að halda áfram hvað sem tautar og raular. Maður gerir það af því að maður elskar það. Það sem fæst að launum er líka ómetanlegt (sem er líka eins gott því ekki fær maður neina vinnu út á menntunina).

Ég ætla ekki að eigna honum einn eða nokkurn þessara eiginleika, manninum sem mig langar að minnast. Hann þekkti ég ekki svo vel. Því finnst mér ég varla eiga rétt á því hvað ég hef verið dapur síðan ég frétti að hann væri dáinn, þó að ég geti vitanlega ekkert gert í því þótt mér líði þannig.

En, hann kom mér fyrir sjónir sem félagi í þekkingarmaníunni: annað eintak sem heldur áfram sama hvað, jafnaldri minn og samstúdent sem haldinn var sömu veikinni. Hann var raunar alvarlega veikur á annan hátt, en hann virtist ekki ætla að láta það stöðva sig þótt veikindin hömluðu honum allverulega. Leiðir okkar lágu sífellt oftar saman eftir því sem á leið veturinn og – ef til vill ekki að furða í fámenninu – hittumst við nálega daglega niðri í Háskóla í sumar. Alltaf settist hann á spjall við mig ef hann fann mig í Stúdentakjallaranum eða á Háskólatorgi. Ég viðurkenni að mér þótti erfitt að tala við hann, það gerðu veikindi hans, en mér líkaði fjarska vel við hann. Hann var góður strákur.

Ég hef stundum velt því fyrir mér, fengi ég að loknu lífinu að velja eitt af tvennu: að fá þegar að komast í allan sannleika um alla hluti, eða hafa eilífðina til rannsókna en aldrei fá úr neinu endanlega skorið, þá veldi ég síðari kostinn. Ég hef líka hugsað með mér að hvernig sem annars um mig fer, þá vilji ég fá að halda áfram þekkingarleitinni til síðasta dags. Kannski er það einmitt þetta sem fær mest á mig þegar ég hugsa um kunningja minn úr Háskólanum: hann vissi að hver dagur gæti orðið sinn síðasti, og hvernig sem honum annars farnaðist þá bar viðleitnin hann samt hvern einasta dag út í Háskóla. Þar sá ég hann fyrst og þar sá ég hann síðast. Og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við mig nú þegar ég veit að ég mun aldrei sjá hann aftur, en á samt alltaf von á því að hann komi og setjist hjá mér. Hitt veit ég að ég er glaður að hafa þekkt hann, þótt ekki hafi ég þekkt hann vel, og svo mikið er víst að mér finnst heimurinn fátækari fyrir það að hann er horfinn.

Ég þarf ekki að vona, því ég veit í allri einlægni að heimspekingsins Gunnars Júlíusar Guðmundssonar verður lengi minnst.