Atlantis

Ekki man ég hver þrætti fyrir tilvist Atlantis við mig um daginn, en hér stendur mín meining nokkuð svört á hvítu. Það er einfaldlega svo að flestir fræðimenn eru sammála um að fyrirbærið hafi verið symbólískur uppspuni Platóns, og jafnframt er það sú skýring sem er haldbærust miðað við heimildir. Að ógleymdu því að flest það nýaldarlið sem heldur uppi vörnum fyrir Atlantis er víst með að kunna ritsafn Erichs von Däniken utanbókar.

Svo er alltaf goðsögnin innan hinnar sönnu goðsögu, Trójuhesturinn svo dæmi sé tekið. Ódysseifur hefur þurft að vera fjandi klár til að fá jafn fáránlega hugmynd. Og eins mikið og ég gleðst yfir því að Schliemann hafi fundið brunarústir Tróju og þarmeð staðfest goðsögnina að einhverju leyti, hlýtur að bera að varast alla yfirlýsingagleði; tréhrossin þurfa að sitja á hakanum. Knossos og Bergþórshvoll teljast staðfestar minjar, en það hlýtur á hinn bóginn að teljast afar vafasamt að minjar á Santorini séu leifar Atlantis eins og sumir vilja halda fram. Hafa hinir örvilnuðustu áhugamenn reynt að draga upp vafasöm tengsl milli sprengigossins þar og Rauðahafssögu Gamla testamentisins, í hvaða tilgangi nákvæmlega veit ég ekki.

Í þessu sambandi er mér minnisstæð saga af því þegar landnámsbærinn við Aðalstræti var grafinn upp. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stýrði uppgreftrinum, en sonur hans er mér kunnugur. Að hans sögn mun hann hafa sagt við fjölmiðla, áður en þeir tóku hann formlega tali, að það kæmi ekki til greina að hann svaraði neinum spurningum um Ingólf Arnarson. Þegar fréttamaðurinn svo spurði hvort verið gæti að þar væri hús Ingólfs svaraði hann um hæl: Hvaða Ingólfur? Við lá að Velvakandi yrði að sértímariti í kjölfarið – vissi sjálfur fornleifafræðingurinn ekki hver Ingólfur Arnarson var?

Það er nefnilega ekki síst fjölmiðlanna vegna að rétt er að vera á varðbergi gagnvart svona sögusögnum. Einmitt þess vegna spurði ég sjálfan mig, þegar ég las frétt þess efnis um daginn að grafhýsi Heródusar mikla hefði fundist við Jerúsalem, hvort hún hefði þá fundist í vikunni eða hvað? Auðvitað hef ég ekki hugmynd um hversu miklar rannsóknir höfðu farið fram þegar þetta var tilkynnt, en ef ísraelskir fjölmiðlar eru jafn heimtufrekir og íslenskir, þá var allt eins líklegt að um gott gisk hefði verið að ræða. Raunar hefur Hebreski háskólinn nú staðfest fundinn.

En þrátt fyrir alla staðfesta fundi er þeim mun meiri ástæða til að vera var um sig og éta ekki allt hrátt upp eftir fjölmiðlum án nokkurrar umhugsunar. Menn skyldu vera skeptískir í hvert einasta sinn sem Anastasía Rómanoff dúkkar upp í Bandaríkjunum eða hengigarðar Babilóníu finnast meðan Kristur birtist á hundsrassi austur í Karpata. Það er nefnilega ekki vinnandi vegur að vita hvenær óskhyggjan ræður ein för umfram vísindaleg vinnubrögð, að hluta til eða í heild. Að evangelískum hundsrössum ólöstuðum.

5 thoughts on “Atlantis”

  1. Plató hefur heimildir um Atlantis frá Egyptum. Egyptar lifðu við afspurnir af hinni ídyllísku menningu Krítverja. Krítarmenning var á hátindi um 1500 f. kr. Plató nefnir nautaleiki á Atlantis. Nautahopp reið röftum í Krítarmenningu. Sprengigos, ferfalt stærra en Krakatá, skók Santorini um 1500 f. kr. Eyðilagði Krítarmenningu. Askan féll yfir Egypta. Menjar um flóðbylgju með ströndum. Þeir fabúleruðu, voða hræddir. Mæleiningar úr egypska skjali voru rangt þýddar yfir á grísku. Staðsetning Atlantis (Krítar)fluttist út á mitt Atlantshaf. 1500 f. kr. varð 9000 f. kr. Ég var eitt sinn í viku á Santorini, en í tvo mánuði á Krít.

  2. Sæll, ég renni grun í hver talar.
    Um þýðingarvilluna hef ég aldrei heyrt áður svo ég get lítið sagt um það, en það er ágætis útskýring. Kenninguna sem þú nefnir hef ég heyrt áður og finnst hún bæði athyglisverð og langtum sennilegri en sú hugmynd að Atlantis hafi verið á Santorini sjálfri.
    Atlantis mun annars hafa verið mikið sjóveldi. Ég er ekki viss um hvernig flotamálum var háttað meðal Mýkena, en það hefur varla verið merkilegri floti en víðasthvar annarsstaðar. Þess vegna meðal annars hefur symbólíkin við Aþenu þótt svo líkleg, vegna flotastyrks þeirra, og hvað gæti gerst ef Aþeningar yrðu of hrokafullir.
    Allavega, það sem helst fer í taugarnar á mér við Atlantis eru ekki vangaveltur um hvort Platón skáldi þetta eða hafi frá Egypta, heldur hugmyndir sumra, sem ég kalla nýaldarlið, um að þetta hafi verið svo þróað ríki miðað við nútímastandarda að annað sé ómögulegt en geimverur eða þaðanaf undarlegri skepnur hafi komið að gangi mála þar.
    Það má svosem bæta við að ég var eitt sinn tvær vikur á Krít og skoðaði meðal annars Knossos, sem mun hafa staðið við sjó á sínum tíma. Afar merkilegur staður, en ég verð að játa að einna minnisstæðast við þá ferð er að hafa séð elsta salerni í heimi …

  3. Pingback: Bloggið um veginn
  4. Nei, í rauninni hafði Plató sínar heimildir af Sókratesi, sem hafði heimildir sínar af afa sínum sem hafði heimildir sínar af Sóloni sem hafði heimildir sínar frá Egyptum.
    Þeir sögðu að þetta hafi verið stór eyja fyrir utan súlur Heraklesar.
    Ég hef enga trú á því að Santorini hafi haft nokkuð að gera með söguna um Atlantis.

Lokað er á athugasemdir.