Daglegt amstur

Eftir stórfelldar ruslpóstsárásir á vefsvæði Kaninkunnar síðustu vikuna hef ég neyðst til að setja upp síu. Það er skárra en að eyða milli fimmhundruð og þúsund tilboðum um ókeypis barnaklám og læknadóp á dag.

Goðafræði Snorra-Eddu lauk ég á örfáum dögum og tryggði mér fimm einingar til viðbótar. Get ekki sagt að ég mæli með því. Fyrir vikið er ég þó orðinn forvitinn um hvort mögulegt sé að ljúka öllum einingum til BA-prófs á einu sumri.

Tilvitnun dagsins er úr Ynglinga sögu:

Óðinn átti tvá bræðr. Hét annarr Vé, en annarr Vílir. Þeir bræðr hans stýrðu ríkinu, þá er hann var í brottu. Þat var eitt sinn, þá er Óðinn var farinn langt í brot ok hafði lengi dvalzk, at Ásum þótti örvænt hans heim. Þá tóku bræðr hans at skipta arfi hans, en konu hans, Frigg, gengu þeir báðir at eiga. En litlu síðar kom Óðinn heim. Tók hann þá við konu sinni.

3 thoughts on “Daglegt amstur”

  1. Ojbara!
    Akismet sér um þetta fyrir mig, ég hef aldrei fengið rusl alla leið inn, þarf ekki að eyða frekar en ég vil (sjálfkrafa eftir 14 daga)
    Ég held að það sé hægt að fá Akismet þegar maður notar wordpress, allavega er kunningi minn með slíkt, og þó ekki á wordpress.com heldur eigin léni.

  2. Fyrir fáeinum árum lauk nemandi við HÍ BS-prófum í hagfræði, viðskiptafræði, eðlisfræði, tölvunarfræði, stærðfræði auk BA-prófs í heimspeki á þremur árum. Fyrst sex gráður á þremur árum eru mögulegar, þá hlýtur ein gráða á sumri að vera möguleg.

  3. Ég vildi heldur hafa reikningsdæmið en að þurfa að sjá allt ruslið sem kemur inn, því það blandast inn með öðrum athugasemdum, enda þótt ég eigi eftir að samþykkja það. Annars þarf ég sjálfur að samþykkja eigin athugasemdir héðan af, jafnvel þótt ég sé skráður inn sem admin.
    Ég velti fyrir mér að hve miklu leyti maður lærir efnið á slíkri hraðferð gegnum námið, ég hefði áreiðanlega lært meira á samfelldri setu gegnum námskeiðið en eins og ég tók það. En þetta er magnaður árangur hjá þessum náunga, er hissa á að ég hafi ekki heyrt af honum áður.

Skildu eftir svar við Doddi Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *