Hugsið ykkur frið

I.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur, vígði á dögunum Friðarsúlu Yoko Ono við hátíðlega athöfn í Viðey. Í yfirlýsingu Yoko við það tilefni kom fram að vonir hennar stæðu til að ljóskeilan mætti vera börnum huggun harmi gegn í vondum heimi, að hún gæfi þeim von þegar enga von væri að finna. Friður, kærleiki, bræðralag. Sjálft ljós heimsins, gjöf Yoko og Íslendinga til heimsins. Við sama tækifæri lýsti Vilhjálmur því yfir að Reykvíkingum væri sannur heiður sýndur með því að slíkt leiðarljós fengi að prýða borgina, heiminum til verðugrar áminningar. Friður er söluvara sem klikkar aldrei, og hann var stoltur hann Villi, enda ærin ástæða til: „Hugsið ykkur frið“ var letrað á mund keilunnar, á öllum heimsins tungumálum. Það höfum við fyrir satt að eru kjörorð Sjálfsóknarflokksins.

II.
Tveimur dögum síðar eru bítlar og blómabörn þeirra farin en súlan er enn í algleymingi; tvö tungl eru nú á himninum og meðan annað er hálft reynist hitt ekki eins hverfult: Ljós friðar og kærleika logar enn jafn skært og kvöldinu fyrr og það enda þótt Lennon sé farinn heim til Englands, þaðan sem lítt ómerkilegri tíðindi berast með öldum netvakans: In Rainbows, nýjasta plata Radiohead, er nú fáanleg á netinu. Kannski ekki hvítaalbúmið þeirra, en fjandi þétt engu að síður.

Radiohead, og þá ekki síst forsprakki þeirra, Thom Yorke, eru ekki síst þekktir fyrir afskipti sín af pólitík. Yorke hefur til dæmis barist fyrir skuldaaflausn Afríkuríkja, frelsi Tíbets og minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, svo eitthvað sé nefnt. Á plötunni In Rainbows má þannig finna lög á borð við House of Cards og Videotape, sem sérstaklega voru samin fyrir tónleikahátíðina Free Tibet á síðasta ári. Þar má einnig finna lagið Nude, sem Yorke samdi á OK Computer-túrnum fyrir tíu árum. Enda þótt textinn hafi lítið eitt breyst gegnum árin er inntak lagsins enn það sama: Ekki fá stórar hugmyndir, það verður ekkert úr þeim. Upphaflegt nafn lagsins helgaðist enda af boðskapnum: „Big Ideas (don’t get any)“.

Í eins mikilli andstöðu og inntak lagsins Nude er við pólitísk markmið Thoms Yorke, Yoko Ono og – að því er virðist – Vilhjálms Vilhjálmssonar, má velta fyrir sér hvort ekki liggi nokkur sannindi þar að baki. Vilja ekki allir jú frið, bræðralag og jafnrétti? Eða hvaða hagsmunir liggja þar að baki? Geta ekki allir tekið undir nauðsyn þess að byggja börnum okkar betri heim, að skila honum til þeirra eins og við tókum við honum, ef þá ekki betri, ef slíkt er á annað borð á færi okkar? Að minnsta kosti virðist orkan ein ekki ylja hjartarótum Reykvíkinga þessa dagana, því við eigum friðarsúlu, og friðurinn lýsir hæverskur upp skammdegið af óvefengjanlegri reisn, ef ekki orkufrekju. Já, það er friður í Reykjavík.

III.
Nei, það er ekki friður í Reykjavík. Hógværar yfirlýsingar Vilhjálms Þ. nægja einar ekki til, því skyndilega er uppi fótur og fit vegna hins nýstofnaða orkufyrirtækis Reykjavík Energy Invest og aðkomu borgarstjóra að stofnun þess. Orkan yljar, sem fer í súlusjóið, en hún er skammgóður vermir. Friðurinn er úti. „Et tu, Binge?“ verða síðustu orð borgarstjóra. Að sinni. Því sannarlega reyndist friðurinn nægur til að vinir kæmu aftan að bestu vinum, ljóskeilan minnir okkur á það, þótt Yoko sé farin. Og Ringo og Lennon yngri. Vissulega var ljótt af Binga að græta vini sína, það er þó spurning hvort Gísli Marteinn finni frið í súlunni, þar sem engan frið væri annars að finna, hvort innhverf íhugun færi honum þá sáluhjálp sem hann svo þarfnast. Af myndinni í Netmogganum að dæma þarf hann altént meira en bara heitt kókó og bangsann sinn Bóbó.

Og á meðan við njótum þórðargleði okkar yfir öllum þeim fíflagangi sem viðgengst meðal pólitískra andstæðinga, eða bara almennt þeirri vitleysu sem viðgengst í þessum sirkus sem nefnist pólitík hér á landi, hljóta menn að spyrja sig þess hversu lengi nýr meirihluti kemur til með að endast, þegar hann veltur allur á einni manneskju, sem þar fyrir utan er hætt í flokknum sem hún kemur til með að starfa fyrir innan meirihlutans. Og þótt friður sé kannski kominn á að nýju, hvort sé í takmarkaðan tíma, á Bingi líklega fáa vini eftir; Júdasi beið víst enginn kanelsnúður við enda ljóskeilunnar. Mætti þá ekki heldur velta fyrir sér hvort þetta sé ekki ein þessara stóru vanhugsuðu hugmynda sem virtust góðar á sínum tíma, ef þær virtust þá nokkru sinni góðar.

IV.
„Don’t get any big ideas, they’re not gonna happen,“ syngur friðelskandinn og mannvinurinn Thom Yorke, meðan ljós heimsins, kraftbirtingarhljómur friðarins, lýsir upp næturhimininn og fjórflokkurinn tekur til starfa við að sópa hárkollum úr Ráðhúsinu. Já, ég held ég komi til með að spila það aftur og aftur á komandi misserum, allt þar til Yoko sér að ein friðarsúla mun seint nægja heiminum öllum. Hvað þá heldur Reykjavík. Uns líður að því getum við í öllu falli hugsað okkur frið.

– Birtist á Egginni þann 25. október 2007.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *