Ég er blogg

Ég fékk æðislega yndislega hugmynd svona milli þess sem ég vildi ekki vaka og gat ekki sofnað sem í framkvæmd kemur til með að útvega mér tíma í staðinn fyrir peninga og gera mig fátækari en ella – sem er alltaf gott svo það sé til nokkurs að kvarta, ekki síst á bloggsíðu sem þessari. Blogg eru náttúrlega til þess gerð að beina athygli að sjálfum sér, kvarta og kveina, fá fólk til að vorkenna sér og taka persónuleikapróf á Quizilla.

Hljómar vel þannig að höldum aðeins áfram: Ég hef ekkert við aukatímann að gera nema ef vera vildi að drekka bjór og reykja sígarettur. Skiptin eru að því leytinu til vafasöm að með meiri tíma og minni peninga get ég drukkið færri bjóra og reykt færri sígarettur en ella per hvað sem er, til dæmis klukkutíma. Meiri tími til að gera minna. Æ, kannski er það bara fínt. Ég ráðfæri mig við bankann á morgun um hvernig best sé að skipta greiðslum út næstu önn.

Og nei ég er ekki hættur. Ég hef hinsvegar komist að því að það er leið undan öllu. Finnst best að lifa lífinu þannig að það valdi mér sem minnstum óþægindum. Og hver veit, kannski vinn ég í lottóinu á endanum og verð nógu ríkur til að kaupa mér svona. Miklu heldur gerði ég það en fá mér aðra eyju í laginu eins og Ísland. Eiginlega furðulegt að Íslendingar hafi ekki sjálfir fengið þá hugmynd fyrstir.