Jólaskap

Það er makalaust hvað Woody Allen kemur mér alltaf í gott skap, Hannah And Her Sisters fer tvímælalaust á meðmælalistann. Það er eitthvað svo dásamlegt einlægt við allt þetta snarbilaða volæði.

Á meðan ég horfði á The Departed, sem ég verð líka að mæla með, kom loks jólasnjórinn. Hann er ennþá þannig að ég er nokkuð vongóður um morgundaginn. Í hádeginu fer ég með öðrum tveggja skapara minna í skötu á Kænunni, sem er söltuð sjóbúlla hér í firðinum (þó hafnfirðingar klúðri því eins og öllu öðru því þrátt fyrir fjarlægð rústar Kaffivagninn í Reykjavík samkeppninni). Fyrst svo margir Íslendingar eru trúræknari við þorláksskötuna en máttarvöldin er ég víst ekkert of heilagur til að prófa. Um máttarvöldin gildir hinsvegar allt annað.

Að þessu ételsi loknu verður tekið til hendinni í kytrunni minni og séð til þess að hún muni aftur teljast til mannabústaða, sem aftur kemur til með að hækka fasteignaverðið og gleðja skaparann, skötuna og máttarvöldin. Ég finn skötuna þegar hlæja í maga mér af kátínu. Að þessu loknu held ég til Reykjavíkur að kaupa hluti handa sjálfum mér fyrir peninga frá ættingjum, sem síðan taka hlutina af mér, pakka þeim inní pappír og gefa mér daginn eftir. Eins og einfaldari lausn sé ekki til. Loks held ég í góðra vina hópi á kaffihús til fundar við jólaglögg. Ef snjórinn verður enn á jörðinni gæti ég meira að segja komist í jólaskap …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *