Aðfangadagsmorgunn

Ekki tókst mér að sofa meira en þrjá tíma í nótt. Er búinn að fá nóg af þessum svefnörðugleikum, þetta er afleitt. Ég hins vegar vaknaði við almennilega jólasnjókomu, þannig að mér varð að einhverjum óskum. Christmas Song í flutningi Nat King Cole er kannski ekki lag til að hlusta á að nóttu til, en ég bara varð.

Bærinn var látinn eiga sig í gærkvöldi á kostnað tiltektar. Nú í fyrsta sinn í meira en ár bý ég í herbergi án pappakassa fullum af drasli, og telst því alfluttur. Meira að segja búinn að setja upp klukku sem gengur afturábak, gott ef Alli gaf mér hana ekki í jólagjöf í fyrra eftir að við reyndum að breyta IKEAklukku. Annars er hálfkaldhæðnislegt að ég skuli nú í fyrsta sinn láta eftir mér að kaupa misódýrar jólagjafir á þessum fjárhagslega herfilegustu tímum. Synd að ég gat ekki keypt fleiri, finnst ég alltaf svo mikill skíthæll þegar vini ber að garði, drekkhlaðnir gjöfum. En ég hef allavega smáræði handa einhverjum í ár.

Í kvöld verður breytt út af vananum og bróðir minn og mágkona halda jólaboðið í stórglæsilegu nýju íbúðinni sinni, og ólíkt fyrri árum verður margt um manninn. Get ekki sagt annað en ég hlakki til. Ætla að útbúa jóladisk í Aldamótabílinn á eftir – jafnvel taka til í henni, hver veit, gera hana sæta – og hnýta slaufu á köttinn, ímyndaða svo hún éti hana ekki. Hvað sjálfan mig varðar verður stefnan tekin á að éta sem mest í dag, jafnvel að ég taki út graflaxinn ef mér tekst þá ekki að sofna aftur. Jólanótt verður venju samkvæmt eytt í bóklestur, át og annan ólestur. Þetta verður bara fínt. Gleðileg jól handa ykkur.

5 thoughts on “Aðfangadagsmorgunn”

Skildu eftir svar við Auðun besti vinur þinn Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *