Litlir vinnumaurar

Ég verð seint talinn til þeirra sem fussa og sveia yfir ungu fólki á vinnumarkaðnum. Mér finnst ekkert eðlilegra en að krakkar fái tækifæri til að vinna fyrir sér innan ramma heilbrigðrar skynsemi, id est: mér finnst í lagi að þrettán ára beri út dagblöð og fimmtán ára afgreiði í bakaríi, en ólíkt kannski sumum finnst mér ekki heilbrigt að jafngömul börn keyri gaffallyftara.

Hins vegar verð ég að játa furðu mína þegar barn kringum þrettán ára aldurinn afgreiddi mig á skyndibitastað í kvöld. Það heillar mig ekki sérstaklega mikið. Ekki vegna þess ég treysti barninu ekki, heldur þess hvernig almenningur er gjarn á að tæta í sig höndina sem færir þeim ruslfæðið. Og án þess að vilja gera lítið úr stráknum sem afgreiddi mig, þá verð ég að spyrja hvort foreldrum hans finnist í lagi að hann komi niðurbrotinn heim eftir daginn hafandi verið kallaður hálfviti, eða þaðan af verra, trekk í trekk yfir daginn – af fólki sem á yfirborðinu virðist ekki eiga við stærri vandamál að glíma en vitlaust afgreiddar pantanir á McDonald’s, en er augljóslega geðbilaðra en barnaperrar miðað við gólin sem það gefur frá sér ef það fær kvartpundara fyrir bigmacpöntun!

Finnst þeim það í lagi? Ég hóf vinnu á tveimur alvöru vinnustöðum samtímis (semsé ekki vinnuskólanum) á fjórtánda árinu en neyddist blessunarlega ekki til að sinna afgreiðslustörfum fyrr en ég var orðinn átján ára. Og mér finnst borðleggjandi að krökkum bjóðist temmilega vernduð atvinnutilboð eftir aldri, bara ekki þetta.

2 thoughts on "Litlir vinnumaurar"

  1. Ojjj, éturðu McDonalds?

  2. Það vill svo til að ég var alinn á plasti frá blautu barnsbeini.
    Brandarar um móður mína eru vinsamlegast afþakkaðir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *