Grautur

Á meðan ég gerðist „myndarlegur“, eins og amma mín segði, og mallaði grjónagraut alveg sjálfur eftir hvatningu Baunar, sem einnig er móðir langtímaskólasystur sem er sigurskáld – sem var vel ætur í þokkabót og rúmlega það! – var nýr meirihluti myndaður í borginni. Einn fór út í kjölfar spillingarmáls, sá næsti í kjölfar jakkafatakaupanna ógurlegu. Ólafur F. gerði náttúrlega bara það besta hvað hann gat fyrir sjálfan sig, enda snýst pólitík ekki um neitt annað.

Ef þið ætlið að kvarta undan setningaskipaninni hér að ofan vísa ég til reglunnar um tilvísunarsetningar sem hluta af nafnlið sem einnig er frumlag.

Til að fagna graut dagsins – lesendum fer nær um hvorn ofantaldra grauta ég á við – fór ég í ríkið og keypti pínu smá. Þar uppgötvaði ég að íslenska stéttskiptingu má sjá á flíspeysum. Verkamenn streymdu í hrönnum innúr dyrunum í 66°N flíspeysum. Úthverfamillistéttin á jepplingunum skoðaði rauðvínsbeljur á Cintamanipeysum (Cintamani hélt ég lengi vel að væri veitingastaður á par við Serrano). Ég, námsmaðurinn, borgaði hinsvegar bjórinn með klinki í flíspeysu úr Rúmfatalagernum. Þannig er nú það.

Það minnir mig á að ég hef víst nóg að gera. Ætla að fara að gera það núna. Jamm.

11 thoughts on “Grautur”

  1. Sendu pabba þinn í ríkið strákur og losaðu þig undan þessari áþján að horfa upp á þetta flíspeysulið með ódýrt rauðvín í handarkrikanum.

  2. Fólk missir alveg sjálfsvirðinguna þegar það flytur til Hafnarfjarðar, fer bara blygðunarlaust í flíspeysum í Ríkið. Þegar ég bjó í Hafnarfirði voru þar alvöru karlmenn sem pöntuðu góða leigubíla en drukku að öðrum kosti óblandað brennsluspritt.

  3. Hafnfirðingar eru núna klofinn þjóðflokkur, annar helmingurinn drekkur og slæst á sportbar í hrauninu en hinn dansar gólandi frameftir virkum kvöldum á Café Aroma inní Firði.
    Svo þegar ég ætla að bæta fyrir misgjörðir gærdagsins og klæðast bindi og kórónafötum sem fengju Binga til að skrifa mér aðdáandabréf þá ég finn enga hreina skyrtu. Hvers á ég eiginlega að gjalda?

  4. Já, helvítið á honum, ekki eins og hann passi í þetta (þótt ég eigi 25 ára gamlar ljósmyndir sem sanna að hann gæti það í hliðstæðum veruleika). Ég neyddist meira að segja til að fara á flíspeysunni í vinnuna! Fékk þau skilaboð þar að ég hefði kannski komist upp með stílbrotið hefði það verið hneppt afapeysa. Og á meðan neyðist ég til að vera eins og millistéttarróni til fara þegar ég skrepp í ríkið. O tempora, o mores!

Skildu eftir svar við Kristín Svava Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *