Myndbandasafn og málverk

Davíð Þór hittir naglann á höfuðið hér. Um daginn lenti ég nefnilega á lánþega sem kvartaði yfir að myndirnar okkar á safninu væru svo margar ótextaðar, en hann byggi sko á Íslandi og því væri lágmark að hafa íslenskan texta. Ég benti honum ekkert of vinsamlega á að þetta væri bókasafn, og spurði hvort það hafði hvarflað að honum að fara á vídeoleigu. Það hafði víst ekki hvarflað að honum.

Í dag sóaði ég svo bleki reykjavíkurbúa þegar ég ljósprentaði í vinnunni fjórar myndir eftir Jón Helgason handa sjálfum mér (get alltaf bent á einhvern æðri mér sem er spilltari). Fyrsta myndin er af Austurvelli í sólarupprás, Dómkirkjan í forgrunni hægra megin en Lærði skólinn fyrir miðju bakatil. Næsta mynd er líklega þekktasta mynd sem til er af Læknum, séð til norðurs að vetrarlagi, danskir fánar blakta hvarvetna við hún (til er sambærileg ljósmynd eftir Sigfús Eymundsson, vafalítið notaði Jón hana að fyrirmynd). Þriðju myndina þykir mér vænst um því hún hékk á gangi Öldugötunnar meðan ég bjó þar. Þar er horft frá Austurstræti upp Bankastræti, Innréttingahúsið á hægri hönd og Hollenska myllan trónir hér um bil þar sem Caruso stendur nú. Fjórða myndin er tilkomumest, ljóslifandi málverk af Bankastræti séðu til vesturs, elsta steinhús Reykjavíkur sem gjarnan er nefnt Stella í höfuðið á versluninni sést (þar bjó Jón einmitt), en hin húsin eru ekki lengur til. Þá sést Útvegsbankahúsið við nokkuð torkennilegt Lækjartorg, en nú er þar Héraðsdómur.

Þessar myndir prýða nú veggina í herberginu mínu, og þótt fyrr hefði verið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.