Fyrirsegjanlegustu bloggtíðindi ársins: Ágúst Borgþór er kominn á Eyjuna. Minna mætti það ekki vera.
Í öðrum fréttum: Allt sem gerist kringum mig þessa dagana er of steikt til að tala um, þannig að ég ætla ekki að tala um það. Það litla jákvæða er síðan of persónulegt til að tala um. Það verður sjálfsagt lítil breyting þar um á næstunni.
Annars er í dag aldarafmæli afa míns heitins Arngríms. Hann lést sama ár og ég fékk köttinn minn, þó ekki væri nema fyrir það reyndist mér auðvelt að telja árin. Það var einnig sama ár og ég las mína fyrstu bók ótilneyddur. Hana fékk ég keypta í Eymundsson í Austurstræti og þurfti að hafa nokkuð fyrir því. Mér var þá og er enn óskiljanlegt þetta hik í foreldrum mínum þegar ég bað sjálfur um þá bók sem ég vildi lesa (pabbi keypti fyrst Bláskjá í staðinn en hana vildi ég hvorki sjá né heyra af).
Áður en ég fékk bókina minnist ég þess að hafa setið á rúmstokkinum hjá afa mínum og lesið fyrir hann úr lestrarkverinu Má ég lesa? Hann var orðinn afar máttfarinn en hann bað mig þó samt að hætta ekki að lesa, og svo fór að lokum að ég kláraði bókina fyrir hann. Það var síðasta skiptið sem ég sá hann, í miðjum jólaundirbúningnum. Allt var þetta svo erfitt að skilja þá, og fjarvera afa varð áberandi einkenni jólanna í mörg ár á eftir. Jólasveinninn hvarf mér þetta sama ár.
Það er eftir afa sem ég heiti Arngrímur Vídalín, og allt frá því ég var lítill fannst mér mikil ábyrgð í að bera nafnið hans. Það hefur stundum reynst vont að geta ekki leitað til hans, og þótt mér sé lítið um væmni gefið þá upplifi ég stundir þar sem ég velti fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið öðruvísi ef hans hefði notið við lengur. Það er við hæfi í dag að velta því fyrir sér. Aðra daga leyfi ég mér ekki að trega ímyndaða nútíð sem aldrei varð.
Keyptu eyjan upplagið af bókinni hans?
Ártíð; dánarafmæli, ekki rétt? fékkstu kannski köttinn fyrir réttri öld?
Lexía: Ekki slá um þig með orðum án þess að kanna merkingu þeirra.
Knús á þig,vonandi var gaman úti að borða..ég kem með á 125 ára afmælinu 😉