Róni og höll

Í stuttri bæjarferð sem ég gerði mér í dag vatt sér að mér náungi á mínum aldri, kvaðst vera útigangsmaður og bað um klink. Sagðist aðeins rétt hafa náð að fullnægja „lífsþörfinni“ þegar hann varð svangur, það væri vandlifað á götunni. Ég leitaði í vösunum en fann ekkert og þar við skildi. Það var ekki fyrr en ég var ekinn á brott að ég mundi að það er hraðbanki þarna á horninu sem ég hefði getað tekið úr handa honum.

Samviskubitið elti mig alla leiðina upp í Holtagarða þar sem mig rak í rogastans við að uppgötva að þar er nú einhver höll með tveggja hæða bílastæðahúsi. Orð fá varla lýst undrinu sem ég varð vitni að þar inni, en einhverjum hefur tekist að afsanna staðfast álit mitt frá því IKEA var og hét að húsið þyldi ekki aðra hæð. Ytri veggir hússins alls hafa verið styrktir svo um munar og nú má á efri hæðinni finna raftækjaverslunina Max og Útilíf auk þess að Te&Kaffi og Eymundsson opna þar bráðum. Á neðri hæðinni spannar Hagkaup rýmið eins og Mikligarður forðum, svo Bónus og Jói Fel. Ég er impóneraður. Það virtust mér Snæbjörn og Elín Lóa einnig vera. Feginsatriði, enda þýðir það að það er ekki bara ég sem er að verða geðveikur. Hvaðan kom þetta, í alvöru talað?

One thought on "Róni og höll"

  1. Avatar Skarpi skrifar:

    Chaa (tungusmellir)! Þá er ég impotent — þaut þaðan úr minni skoðunarferð, að morgni dags í miðri viku (nýliðinni). Sjálfsagt of fámennt fyrir sombísegulinn til að virka. Ósköp er svo djöfullega lágt til lofts!!!
    En ef þú svíkur heimasætu eigin handar og álpast út í kvöld, þvert á gefin loforð, togaðu í bjölluna okkar Erlu. Svo segist súrum munni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *