Öryggið uppmálað

Ég er farinn að halda að svefntruflanirnar mínar tengist dægursveiflum – ekki nauðsynlega árstíðaskiptum, heldur sirkadíska rytmanum svo ég sletti. Ef ég fer að sofa á skikkanlegum tíma hrekk ég undantekningalaust upp kortéri til hálftíma seinna og sofna ekki aftur fyrr en nokkrum tímum síðar í fyrsta lagi. Hinsvegar get ég sofið heilu dagana eins og ekkert sé, eins og krónísk flugþreyta.

Fyrir vikið er ég oftast heldur þreyttur í vinnunni. Í fyrradag rak ég augun í að ráðningarsamningurinn minn hljóðaði bara upp á 70% starf á safninu. Það hljómaði ekki eins og neitt sem ég hefði skrifað undir og mér reiknaðist til að ég hefði vissulega unnið 40 stunda vinnuviku fram að því, svo ég sendi bréf á manneskjuna sem heldur utan um þetta. Í gær fékk ég svarið: Ég hef verið fastráðinn í 30% starf, sem er hefðbundna vetrarálagið mitt, sumarstarfið bætist svo ofan á. Ég hef aldrei gegnt fastri stöðu neinstaðar áður svo þetta er viss viðburður fyrir mig.

Í gær fékk ég svo enn ánægjulegri fréttir staðfestar, og þurfti ekki Leyndarmál Rhondu Byrne eða neinskonar dagsdaglega jákvæðni til að fá góða hluti upp í hendurnar. Skyndilega er bara allt að gerast á öllum sviðum nema því fjárhagslega, þar sem ég drulla á mig álíka rækilega og venjulega án verulegrar hjálpar einhvurra kreppudrauga. Og stundum þegar maður á engin orð til að lýsa væntingum sem allteins gætu hrunið án fyrirvara eða sjáanlegrar ástæðu, og stenst þá freistingu að gefa vafaatriðum einn einasta gaum, þá langar mann helst að hlaupa í bæinn á skyrtunni, öskrandi af gleði.

4 thoughts on "Öryggið uppmálað"

  1. Avatar Ásgeir skrifar:

    Þetta er eins og lýsing á mínum eigin svefntruflunum.

  2. Avatar Emil skrifar:

    En þú ert alltaf hlaupandi um bæinn á skyrtunni, einni saman. Hef aldrei skilið það blæti. Whatever makes you happy.

  3. Avatar Jón Örn skrifar:

    Hefurðu prufað að breyta um umhverfi? Eins og til dæmis að sofa í bílnum þínum í miðbæ Reykjavíkur? Það ætti að leysa vandamálið.

  4. Þú ættir nú að reyna að fara þá snemma að sofa. þá verður þú ekki alltaf geyspandi í vinnunni. Hvað er svona skemmtilegt að segja hvað lánþegar segja að skrifa það hér .Arngrímur ég er verulega þreyttur á að þú segir að þú ættir að hitta . Drífðu í því maður ef þú ert vinur minn þá verður þú að hitta mig nenni ekki að bíða og bíða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *