Minningar

Parísardaman geðþekka skoraði á mig að fylla út svona lista. Ég skora á Silju, Halldór og Alla að fylla út líka (á sínum eigin síðum!).
1. Lykt og minningar. Er einhver sérstök lykt sem vekur hjá þér minningar? Segðu frá.
Lyktin af Half & Half píputóbaki minnir mig á tvær vikur sem ég var veikur. Fyrri vikuna gat ég ekki talað, þá síðari gat ég rétt náð að reykja eina sígarettu án þess að líða útaf sökum slappleika. Undir eins og ég komst á lappir virkjaði ég pípuna sem ég hafði nýverið keypt.
2. Lög. Vekur eitthvað ákveðið lag góðar minningar? Titill og minning, ef þú treystir þér til að deila því með öðrum.
Don’t Look Back in Anger með Oasis vekur upp ljúfsára minningu af fyrsta vangadansinum á skóladansleik í sjöunda bekk.
Ég var skotinn í stelpu en hún ekki í mér, svo þegar ég bauð henni upp í dans þverneitaði hún. Þá sá önnur stelpa á mér aumur og bauð mér að dansa, einmitt við þetta lag.
Á leiðinni heim sá ég halastjörnu og óskaði mér. Þá var ég þegar orðinn skotinn í hinni.
3. Hvað með lag sem vekur upp slæmar minningar? Viltu deila því með öðrum?
Muriel með Tom Waits. Það var ástarsorg sem entist mér svo lengi að ég var nánast farinn að þrífast á henni. Þegar upp var staðið var erfiðara að jafna sig á laginu en stelpunni, og nú þegar ég heyri það vekur það ekki upp neinar tilfinningar, aðeins minningu um ástand sem ég skil ekki lengur.
4. Matur. Særir einhver matur fram ákveðna minningu?
Kálbögglar minna mig á þættina um Línu Langsokk sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu hér í eina tíð, af því einu sinni hittist þetta tvennt á sama tíma. Hobnobs súkkulaðikex minnir mig á þegar bróðir minn eldri lá á sjúkrahúsi í heila viku, án þess ég muni hvað amaði að honum. Kjúklingur minnir mig á sunnudagsboðin hjá ömmu, þegar slíkt þótti hátíðarmatur. Bjúgu minna mig á hina ömmuna. Hamborgarhryggur á jólin ’91, einu jólin sem ég fékk ekki hamborgarhrygg. Þá var afi nýdáinn og við bræður vorum geymdir hjá fyrrnefndu ömmunni meðan foreldrarnir fóru norður í land til að vera viðstaddir. Ég man vel hvað ég fékk í jólagjöf og gæti talið það upp hvenær sem væri.
5. Föt? Áttu einhverja flík, eða þegar þú sérð ákveðna flík, fær það til að hugsa um ákveðinn tíma, stað eða manneskju?
Fyrsti frakkinn minnir mig alltaf á fyrsta árið í menntó, eitt mesta mótunarár í lífi mínu. En hann er ónothæfur inni í skáp svo það telst varla með.
Sixpensarinn minnir mig alltaf á Finnland. Ég hafði nýverið keypt hann þegar ég var sendur þangað með ungliðum VG til að sækja ráðstefnu. Sú ferð situr ennþá í mér og mun líklega gera það um ókomna tíð.
Brúni hatturinn minnir mig á dimissio úr MS, sá svarti á jarðarför langömmu.
Blái jakkinn minn minnir mig á heiftarlegasta rifrildi sem ég hef átt við mömmu mína, gráu jakkafötin á fyrsta fylleríið í tíunda bekk, regnfrakkinn á Kaupmannahöfn.
Þær eru fleiri en þetta dugar.

2 thoughts on “Minningar”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *