Það var platað mig

Guðmundur Andri á ansi hreint fínan pistil í Fréttablaðinu í dag, sem lesa má hér. Ef til vill verða margir til að álykta að notkun hans á nýju þolmyndinni endurspegli máltilfinninguna, en þess heldur er „Það var platað mig“ ef til vill lymskulegasta diss sem sést hefur á síðum blaðanna lengi.

Stundum verð ég pirraður út í fólk. Það gildir jafnt í vinnunni sem annarsstaðar. Þegar manneskja segir í umvöndunartón að framkvæmdirnar við safnið hefði átt að tilkynna í Morgunblaðinu – af öllum furðulegum stöðum – hvernig annars eigi hún að vita upp né niður hvað sé að gerast á safninu hverju sinni, þá fýkur í mig. Blessunarlega kann ég að halda mér saman ólíkt sumum. Næst fæ ég skeitara sem stinga upp á að tíðindi verði gröffuð utaná helvítis bygginguna.

En auðvitað er þetta bara hártog. Maður finnur þolinmæðina hverfa smám saman við misgóð tíðindi yfir daginn og lánþega á tveggja mínútna fresti sem – sumpart eðlilega – spyrja hvort við séum að flytja, hvort búið sé að reka okkur, hvort sprengja eigi húsið í tætlur, hvað sé eiginlega að þessum nýja meirihluta að fara svona með okkur; við að passa upp á að krakkar slasi sig ekki í brakinu, að heimiliskettir lokist ekki í gámnum og þiggja umvandanir frá fólki með bros á vör og uppgerðarskömmustu.

Maður tekur að skynja velsæmislínuna þrengri þegar líða fer á daginn. Annars er þetta fínt. Og auðvitað á fólk skilið að fá skýr svör og meira en viðunandi þjónustu – rétt eins og alla aðra daga. Það þarf bara aðeins að kyngja milli svara stundum.

Stoppið mig þegar þið fáið leið á leiðinlegu vinnubloggi. Líf mitt er vinnan þessa dagana.

4 thoughts on “Það var platað mig”

  1. Graffið hlýtur að vera nútímasamskiptamáti, koma Hönnu Birnu í skilning um það og málið er leyst.
    Ég vann á Pósti og síma og kannast ó svo vel við vælið, sem feykti mér á endanum út í lönd.

  2. Mikið hlýtur að vera þægilegt fyrir starfsmenn á póstinum að þurfa ekki að díla við símann lengur. Bandaríki níunda áratugarins hafa vonandi kennt okkur ýmislegt um hvernig beri að koma fram við opinbera starfsmenn …

  3. Ég myndi alltaf bara skrifa vinnublogg ef hápunktur dagsins hverju sinni væri ekki einmitt þegar ég fer að skokka.
    Ég er alveg búin að skrifa hundrað skokkfærslur fyrir bloggið í huganum, en kýs að hlífa lesendum við óhófi.

  4. Ég lít á hina nýju þolmynd sem félagssálfræðilegt vandamál, fyrst og fremst. Hin hefðbundna þolmynd er ekki nógu ópersónuleg og varpar ekki allri ábyrgð nógu langt í burtu. Málið var víst ekki að einhver lamdi hann, það var ekki einu sinni það að hann var laminn; nei, það var lamið hann. Það var enginn gerandi og það er varla að það hafi verið neinn þolandi heldur. Þetta var eitthvað sem gerðist í einhverju tómarúmi og virðist ekki hafa neina þýðingu.

Skildu eftir svar við Kristín í París Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *