Gamlir skólafélagar

Ég heilsa aldrei gömlum skólafélögum sem ég hitti á förnum vegi, að minnsta kosti ekki að fyrra bragði. Ef þau finna ekki hjá sjálfum sér að heilsa mér lít ég svo á að öll tækifæri til að kynnast þeim séu að öðru óreyndu þegar glötuð, fyrst viðleitnin til þess arna var ekki meiri en svo fyrstu tíu ár skólagöngunnar.

Þetta er ekki ákvörðun sem ég tek af drýldni, heldur af biturri reynslu. Það er bögg að heilsa manneskju aðeins til að sjá glitta í svip sem maður sá síðast á diskóteki í áttunda bekk, rétt áður en hún vippar sér fyrir hornið án þess að gefa frá sér svo mikið sem eitt einasta múkk.

Þau verða bara að finna það hjá sjálfum sér. Ég fæ ekki séð að ég skuldi neinum þá viðleitni.

Aftur á bekkinn

Að forníslenskunni undanskilinni sé ég ekki fyrir mér að ég muni eiga í miklum vandræðum með námið það sem eftir er. Að öðru leyti finnst mér ég aftur kominn í menntaskóla. Bekkjarsystir mín ein deilir ekki þeirri tilfinningu. Ég veit ekki hvort ég ætti heldur að öfunda hana af að fá að læra þetta allt saman í fyrsta sinn eða hætta þessum umkvörtunum yfir annars prýðilegu lúxusvandamáli, sama hve mikið mér kann að leiðast í tímum.

Eini áfanginn sem ég var spenntur fyrir reyndist nógu aðsóknarlítill til að vera aflýst. Þess í stað bauðst okkur að sitja sambærilegan áfanga á meistarastigi, en ég er ekkert of viss um að það yrði metið til BA prófs. Og ég er ekkert alltof viss um það heldur að ég hafi áhuga á að eiga inni bónus fyrir gráðu sem er óvíst að ég taki. Þannig að ég held ég hlaði bara ofan á mig skyldunni og plægi í gegn í von um að útskrifast sem fyrst.

Næsti maður sem segir mér að allt sé texti á ekki von á góðu frá mér.

Skuldarinn

Þá er ég búinn að ganga frá skuldum mínum við guð og menn í bili. Það var afar ánægjulegt að gera upp við Mastercard að venju, eina fjármálafyrirtækið fyrir utan Byr sem veitir viðskiptavinum sínum svigrúm til að hafa rétt fyrir sér endrum og sinnum. Það getur sparað bæði peninga og streituraskanir að stunda viðskipti við heiðarlegt fólk sem leggur sig í líma við að veita viðskiptavinum sínum eins góða þjónustu og þeim framast er unnt.