Sól og blíða

Ég sit úti á svölum þessa stundina, drekk bjór, prófarkales bók og kemst svona smám saman að því að kannski á heitt loftslag betur við mig en þetta íslenska. Ég minnist þess að hafa lesið í kennslubók í Laugarnesskóla að loftslagið á Íslandi væri „temprað“, en sé ekki nokkra leið til að sættast á þá skýringu sem felur í sér að hér sé aldrei neitt sérstaklega heitt, hvað þá heldur neitt sérstaklega kalt. Hér er skítkalt allt árið um kring nema rétt svona stöku sinnum. Einsog t.d. í dag. Það gerir rokið.

Tek sérstaklega eftir því að bjór bragðast öðruvísi (og betur) þar sem er heitt, og að sígarettur svífa öðruvísi á mann ofan í bjórinn en þegar kalt er. Að því sögðu þætti mér vænt um að geta flogið suður á bóginn þegar kælir hérna. Haldið til í Ástralíu yfir köldustu vetrarmánuðina og komið aftur þegar fer að hlýna hér. Annars man ég ekki eftir viðlíka veðri á þessum veðurbarða kletti svo snemma árs. Ekki nokkurntíma.

Við bræður

Mig dreymdi síðastliðna nótt að við Andri bróðir hefðum lent í flugslysi við misheppnaða – og að því er virðist óþarfa – tilraun til lendingar á Miklubraut á háannatíma. Við sluppum ómeiddir þótt vélin tættist utanaf okkur, en það var samt óskemmtilegur draumur.

Sami bróðir minn fermdist síðasta sunnudag. Hann var auðvitað langflottastur í athöfninni einsog hann á kyn til og hratt sér í vettergi fyrir ætternisstapa í þeim efnum fremur en öðrum.

Litla fyrirbærið er svo einlægt í þessu. Eitthvað annað en bróðir sinn sem var nýgenginn af trúnni þegar hann fermdist. Hún kom í smábylgjum aftur næstu ár á eftir en aldrei þannig að ég raunverulega tryði því. Ólíkt höfumst við að. Og ég er bara ánægður með hann.

Ljóti dagurinn

Já, þetta var nú ljóti dagurinn. Hann hófst á því að sjöþúsund manns reyndu að hindra mig í að sofa frameftir með því að hringja látlaust. Þegar ég loksins skrönglaðist framúr ákvað ég að fara í IKEA að kaupa þessa hillu sem mig hefur vantað svo lengi.

Á leiðinni heim verð ég stopp aftan við tvo bíla því sá fyrsti þarf að beygja til vinstri. Þegar færið gafst tók hann beygjuna og sá næsti ók af stað. Undir eins og ég steig á bensíngjöfina fékk ég þungt högg aftan á mig. Ég fékk eitthvað framan í mig sem ég veit enn ekki hvað var og heyrði gler springa einhversstaðar. Eitt andartak hélt ég að afturrúðunni hefði rignt yfir mig en hún var í heilu lagi. Mér hinsvegar brá svo mikið að ég kreisti stýrið nógu fast til að blóð hryti undan nöglunum.

Strákgreyið var nýkomið með bílprófið og var eitthvað utan við sig. Eftir að skýrslutöku lauk sagði ég honum að láta þetta ekki á sig fá, þetta gæti komið fyrir alla (það var nú samt líklega öskrað á hann við heimkomu). Bíllinn minn er ekki mikið skemmdur og ég fæ væntanlega bílaleigubíl meðan hann er í viðgerð. Það kemur svo í ljós hvort bakeymslin séu ekki bara vegna húsgagnaburðar og almennrar þreytu – einsog nú verður vikið að.

Þegar heim kom aðgætti ég hvort hillan væri í lagi eftir aftanákeyrsluna og brunaði svo heim til mömmu – of seinn – til að bera með henni teppi sem átti að fara í hreinsun. Þaðan brunaði ég að sækja ömmu á Reykjavíkurflugvöll og skutlaði henni svo til föðursystur minnar í Hafnarfirði. Þaðan þaut ég aftur til Reykjavíkur að bera borð og stóla úr tveim íbúðum, keyra það til mömmu og bera inn til hennar. Litli bróðir er nefnilega að fermast.

Þegar ég loksins komst heim opnaði ég ískaldan bjór og setti saman hilluna. Núna flæða bækurnar ekki eins mikið um gólfin og ég get farið að tæma fataskápana af bókum líka.

Ég hefði samt viljað eyða þessum eina frídegi mínum öðruvísi.

Stiklur

Mér þráleiðist allt tal um nákvæmni Þórbergs. Ennfrekar leiðist mér að sjöþúsund manns hafi ekki talið það eftir sér að skrifa einhversstaðar í greinum sínum um óskyld efni að kaldhæðnislegt hafi verið fyrir „nákvæmnismanninn Þórberg“ að fæðingarár hans hafi verið vitlaust skráð. Get over it.

Sigfús Daðason er manna hófsamastur og öðrum rökfastari í greinaskrifum sínum. Hann hefði orðið betri fræðimaður en skáld, að síðarnefndu hliðinni ólastaðri.

Skilgreiningar á Þórbergi eru bæði óþarfar og villandi. Hann var allt það sem fólk segir hann hafa verið og miklu meira til. Fólk er ekki auðsveigt í hólf, og mér leiðast almennt tilburðir í þá áttina að flokka og greina manneskjur þegar listaverk eru til umfjöllunar. Vinsamlegast hættið því.

Skýrsla

Einsog þessu bloggi hefur aldrei verið ætlað að vera nein skýrsla um eitt eða neitt þá finnst mér ég ekki geta látið undir höfuð leggjast að segja frá rannsókninni sem ég minntist á í gær. Í stuttu máli sagt mældist ekki oflipurð í stökum liðamótum á mér. Skilgreiningin hlýtur þá að ná útfyrir nokkuð sem ég hef orðið vitni að nema í sirkus. En í öllu falli er oflipurð ekki skýring á krampaköstunum mínum.

Í öðrum fréttum er fátt markvert.

Enn af Þórbergi

Ég held stundum að ég sé að verða ruglaður. Ég er með 53 blaðsíður af tilvitnunum í heimildir. Svo þegar ég renni yfir skjalið sé ég að það vantar fullt af heimildum þar inn sem ég þó hef farið ítarlega yfir. Hvers vegna skrifaði ég ekkert niður? Las ég þær kannski aldrei? Er ég eitthvað skrýtinn?

Hvert einasta orð sem ég les um Þórberg finnst mér ég hafa lesið margoft áður. Ég er líkast til kominn á stig alkjalfróðleiks um manninn – sem er næsta við fræðilegt nirvana utan að hafa gefið út bók um efnið.

Árið 1972 heimsótti Þórbergur Hala í Suðursveit hinsta sinni. Hann var þá þjáður allillilega af parkinsonsveiki og skynjaði vitjunartíma sinn, að líklega sæi hann aldrei aftur sveitina sína. Svo hann neitaði að fara. Margrét kona hans reyndi að tala hann til en þegar ekkert gekk var hann á endanum borinn út og settur grenjandi um borð í flugvél til Reykjavíkur. Segir Halldór Guðmundsson.

Mér finnst það svo andstyggilegt að ég á ekki orð til að lýsa því.

Hann lést 1974. Sama ár og zetan – helsta tákn mosagróinna moggaskríbenta – var afnumin. Eða var það 1973? Í öllu falli er hún jafn úreld og helvítis flokkurinn þeirra.