Ljóti dagurinn

Já, þetta var nú ljóti dagurinn. Hann hófst á því að sjöþúsund manns reyndu að hindra mig í að sofa frameftir með því að hringja látlaust. Þegar ég loksins skrönglaðist framúr ákvað ég að fara í IKEA að kaupa þessa hillu sem mig hefur vantað svo lengi.

Á leiðinni heim verð ég stopp aftan við tvo bíla því sá fyrsti þarf að beygja til vinstri. Þegar færið gafst tók hann beygjuna og sá næsti ók af stað. Undir eins og ég steig á bensíngjöfina fékk ég þungt högg aftan á mig. Ég fékk eitthvað framan í mig sem ég veit enn ekki hvað var og heyrði gler springa einhversstaðar. Eitt andartak hélt ég að afturrúðunni hefði rignt yfir mig en hún var í heilu lagi. Mér hinsvegar brá svo mikið að ég kreisti stýrið nógu fast til að blóð hryti undan nöglunum.

Strákgreyið var nýkomið með bílprófið og var eitthvað utan við sig. Eftir að skýrslutöku lauk sagði ég honum að láta þetta ekki á sig fá, þetta gæti komið fyrir alla (það var nú samt líklega öskrað á hann við heimkomu). Bíllinn minn er ekki mikið skemmdur og ég fæ væntanlega bílaleigubíl meðan hann er í viðgerð. Það kemur svo í ljós hvort bakeymslin séu ekki bara vegna húsgagnaburðar og almennrar þreytu – einsog nú verður vikið að.

Þegar heim kom aðgætti ég hvort hillan væri í lagi eftir aftanákeyrsluna og brunaði svo heim til mömmu – of seinn – til að bera með henni teppi sem átti að fara í hreinsun. Þaðan brunaði ég að sækja ömmu á Reykjavíkurflugvöll og skutlaði henni svo til föðursystur minnar í Hafnarfirði. Þaðan þaut ég aftur til Reykjavíkur að bera borð og stóla úr tveim íbúðum, keyra það til mömmu og bera inn til hennar. Litli bróðir er nefnilega að fermast.

Þegar ég loksins komst heim opnaði ég ískaldan bjór og setti saman hilluna. Núna flæða bækurnar ekki eins mikið um gólfin og ég get farið að tæma fataskápana af bókum líka.

Ég hefði samt viljað eyða þessum eina frídegi mínum öðruvísi.

2 thoughts on “Ljóti dagurinn”

  1. Oh en ömurlegt, finn til með þér. En ég er fegin að þetta var nú ekki verri árekstur. Farðu vel með þig og til hamingju með nýju bókahilluna, bókahillukaup eru góð hugmynd. Ég er syndandi um í einhverju bókahafi hérna sjálf.

  2. agalegt að heyra.
    litli bróðir Ástu gömlu-skólasystur-þinnar er líka að fermast í ár, reyndar borgaralega, en það telst samt með.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *