Ferð í bankann

Einsog næstum því enginn sem ég veit um fékk ég ríflega endurgreiðslu frá skattinum. Hún barst mér í pósti í formi ávísunar sem ég arkaði sæll og glaður leikandi milli fingra mér með niður í banka fyrr í dag. Mér þykir yfirleitt leiðinlegt að þurfa að fara í bankann og sjá öll kreppuandlitin með kaffibollana og fékk hálfgert samviskubit yfir að vera að innleysa ávísun en ekki að öskra á þjónustufulltrúann að henni væri helvítis nær að gera mig gjaldþrota, ég gæti sko fundið hana í símaskránni, rispað bílinn hennar og hengt heimilisköttinn uppá snúru.

Að vísu sá ég engan gera það heldur svo ég fékk ekkert alltof mikið samviskubit.

Þvert á móti leit ég vígreifur kringum mig, hló mínu hæverskasta og gjóaði augunum að fálmandi gjaldkera svo hún vissi að hér færi maður með fjármálavit. Þegar röðin kom að mér skellti ég ávísuninni með flötum lófa á gljáfægt marmaraborðið og hallaði eilítið undir flatt á sama tíma og ég skilmerkilega renndi bevísinu mjúklega en glottandi í átt til frúarinnar sem stóðst ekki mátið að gapa af andakt. Hún hafði nefnilega ekkert fengið að gapa af andakt þann daginn. Hver var þessi dularfulli en kynþokkafulli maður?

– Góðan dag, sagði ég og rétti fram kortið mitt. Ég vil leysa þessa ávísun út.
– Jú, góðan daginn. Viltu leggja upphæðina inn á þennan reikning? Hún potaði í kortið mitt.
– Já takk.
– Renndu því bara í gegn, sagði hún þá og bandaði í áttina að einhverju ógnarskelfilegu apparati sem stóð framan við búrið sem hún sat í. Ég renndi kortinu í gegn.
– Viltu að skattstjóri leggi þetta beint inná reikninginn þinn?
– Ha? sagði ég og fálmaði innundir jakkann eftir beiðni sem fylgdi með ávísuninni. Þar stóð skýrum stöfum að ef ég vildi fá millifært beint frá skattinum yrði ég að fylla út beiðnina og koma til ríkisféhirðis.
– En, en … þarf ég þá ekki að tala við ríkisféhirði?
– Nei, ég er að bjóða þér þetta.
– Ég verð að játa að ég skil ekki alveg muninn á hvort skatturinn geri það eða þú gerir það. Getur þú ekki bara gert það? Ég var farinn að roðna og rugga mér í lendunum einsog barn sem er við það að öskra af því mamma vill ekki gefa því farsíma.
– Sko! stafaði hún ofaní mig. Viltu fá þetta greitt INNÁ reikninginn þinn, EÐA viltu fá ávísun senda í pósti?
– Uh, en þetta ER ávísunin sem ég fékk senda í pósti! umlaði ég veiklulega og potaði í ávísunina. Ég horfði á gjaldkerann einsog sokkar stæðu úr nösum hennar. Gjaldkerinn horfði á mig einsog ég væri geðveikur.
– Jú takk, gafst ég upp. Ég vil fá þetta greitt inná reikninginn takk. Gjaldkerinn virtist anda léttar. Skaut samt að mér illyrmislegu augnabliki við og við meðan hún pikkaði taktfasta gjaldeyrisrúmbuna á lyklaborð tölvunnar. Rétti mér svo kvittun fyrir færslunni og bauð mér að eiga góðan dag. Lokaði svo borðinu með einkennilega geðshræringu í svipnum. Hún hélt áfram að líta við endrum og sinnum sem hún stikaði niður ganginn uns hún tók á rás öskrandi útúr bankanum tætandi hár sitt.

Og ég skil eiginlega ekki alveg hvers ég átti að gjalda. Okkur er ekki öllum gefið slíkt fjármálavit. Annars værum við líklega öll gjaldkerar í banka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *