Eðli tungumálsins

Sumum bókmenntafræðingum er mjög tamt að tala um „eðli tungumálsins“ í víðum skilningi, hvað felist í eðli þess og hvaða áhrif það hefur útfyrir sig – sem er í sjálfu sér merkilegt því samkvæmt fræðum þeirra sjálfra felst ekkert utan tungumálsins – á málhafa gegnum texta eða sambærilega miðla sem einnig eru nefndir textar.

Samt hafa fæstir þeirra lagt stund á málvísindi. Hvernig skyldi nú standa á því?

Ágæt þumalputtaregla þegar lesnar eru greinar eftir yfirlýsta póstmódernista: skoða heimildaskrá þeirra greina þarsem talað er um eðli tungumálsins. Bakhtín og Jacobson hef ég séð, en aldrei Chomsky. Hvað þá heldur neitt nýlegra. Það er einsog eftir 1957 hafi ekkert gerst í málfræði. Hvað skyldi það segja okkur um eðli tungumálsins? Hvers vegna er afbygging póststrúktúralismans svona höll undir strúktúralisma?

Kannski af sömu ástæðu og þeir sem mesta áherslu leggja á málrækt hafa enga málfræði lesið, samanber ónefndur málræktarklúbbur: þeim mun minna sem þú veist, þeim mun meira þvaðrarðu, vitandi kannski innst inni að hvað sem þú segir hefur það ekkert með málfræði að gera. Eðli tungumálsins hafnar afbyggingu. Í heimi afbyggingar væri texti ekki til.

15 thoughts on “Eðli tungumálsins”

  1. That reminds me of something I was thinking about a few weeks ago, that a structuralist analysis only belongs with pre-literate cultures. It was developed by Levi-Strauss in that context, and only actually works with mythology and folklore. Scholars started overapplying it just because it worked in one limited context.

  2. Ég hef einmitt mikið stuðst við greiningarlíkan Levi-Strauss á ævintýrum. Það er hvorutveggja handhægt og notadrjúgt. En einsog þú segir þá gildir ekki sami kvarði um tungumál. Lifandi tungumál hafna strúktúralískri greiningu. Póststrúktúralísk greining er aðeins hin hliðin á sömu mynt.

  3. Afbygging Derrida er sér kapítuli sem ber að varast. Þótt maður sé hallur undir póststrúktúralisma er ekki að segja að maður sé endilega afbyggingarsinni. Pómó hefur margt upp á að bjóða: Textatengsl, nútíma mýtólógíur, dauða höfundarins, alsæi, þekkingu og vald.
    „Ekkert er utan texta“ – að tungumálið sé tæki mannsins til þess að túlka veruleikann en nái aldrei að skýra hann til fulls, og þá er meðtalin málfræðin. Þessi hugmynd er reyndar ekki það ný, átti sér fæðingu hjá Nietzsche, og er svosem voða frumspekileg pæling. Ef maður styður þessa skoðun er vita gagnslaust að velta sér upp úr málfræði, frekar er rætt um tungumálið á fyrirbærafræðilegum nótum, sem partur af mannlegri hugsun og skilningi hans á heiminum. Málfræðin er þá sett í mengið „tungumál“ og er ein af stoðum þessa víðtæka hugtaks, hún er notuð til þess að betrumbæta og viðhalda tækinu sem við notum við raunveruleikamyndun.
    Svoleiðis umræða um tungumálið er ekki einskorðuð við pómó. Viðtöku- og túlkunarfræðin ræðir um tungumálið á svipuðum nótum, en þá á þann hátt hvernig við skynjum texta, hvað á sér stað þegar við skiljum o.s.frv. Þá þarf enga málfræði til þess að styðja það.
    Strúktúralistarnir skilgreindu mekanisma tungumálsins og póststrúktúralistarnir hafa í raun engu við að bæta þar, nema að rífa það niður og sundra – en sundrun er sameining samkvæmt Derrida. Ef maður sér Jacobson eða Saussure í heimildaskrá pómó-fræðimanna, er það ekki bara vegna þess að þeir hafa verið að hakka þá í sig?
    Annars er afbyggingin rosalega dómínant kenning. Hún gleypir allt í sig og gerir það ómögulegt að stíga fram á við, að koma fram með nýjan skilning á texta. Ég hef átt í haturs-ástarsambandi við hana. Þessa stundina er ég ekki fyrir afbyggingu.

  4. Það er alltaf gaman að fá ítarlegar athugasemdir, þótt svörin verði kannski ekki öll eins ítarleg. Ég set mínar athugasemdir upp í punktum:
    1. Einsog þú bendir á felur pómó ekki nauðsynlega í sér afbyggingu. En það er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart yfirborðslegum yfirlýsingum um tungumálið í greinum ýmissra gárunga sem ástæða er til að efast um að hafi á því raunverulega þekkingu. Það þarf hver að meta fyrir sig hverju sinni.
    2. Það þarf ekki umdeilanlegar hugmyndir um að allt sé texti eða fyrirbærafræðilegar nálganir á tungumálið til að koma því til skila að tungumál séu ófullkomin. Um það er víða fjallað innan málfræðinnar en aldrei nenna menn að kynna sér þær rannsóknir. Sálfræðin hefur einnig bent á óhjákvæmilega nauðsyn þess að skilningur fólks byggist á staðalmyndum – t.d. kalla öll orð á tiltekna hugræna staðalmynd. En meginlandið vill alltaf finna upp sín eigin hugtök og nálganir óháð öðrum vísindum og fræðum.
    3. Derrida segir að afbygging sé ekki aðferð, ekki krítík, ekki greining og þaðanafsíður sé hún póststrúktúralísk. Þessu síðasta er ég sammála. En hvað er hún þá og til hvers er hún?
    4. Viðtöku- og túlkunarfræði segirðu ranglega að sé óháð málfræði. Hún er grein innan málfræði og það er orðræðugreining líka þótt hún finnist raunar víðar, sbr. Foucault og jafnvel Orwell og Andri Snær. Og ekki fetti ég fingur útí þau fræði þótt oftar virðist mér þau sett fram af leikmönnum en fræðimönnum (innan málfræði þykja hugmyndir um newspeak t.d. ekki sérlega líklegar til árangurs).
    5. Þú segir:

    Ef maður sér Jacobson eða Saussure í heimildaskrá pómó-fræðimanna, er það ekki bara vegna þess að þeir hafa verið að hakka þá í sig?

    Stundum og stundum ekki. Stundum er samhengið ekki einu sinni skýrt. En Saussure er auðvitað voða vinsæll innan semíólógíu líka. Það má nota hann víðasthvar og hafa gaman að. Jacobson er sívinsæll. En hvers vegna hjólaði enginn í Chomsky? Eða núna nýlegar, Optimality Theory? Líklega vegna þess að þau eru ekkert að pæla í málfræði. Og mér segir svo hugur um að allar þessar voða clever tilgátur um tungumálið hafi álíka gildi fyrir það einsog vísindaskáldskapur fyrir raunvísindi.
    Jurassic Park er bara fantasía.

  5. Hó, élþollr!
    Nokkrar athugasemdir:
    1. Jámm.
    2. Ég held að þessar fyrirbærafræðilegu nálganir séu ekki beint að reyna að koma því til skila að tungumál séu ófullkomin, því sem fyrirbæri eru þau ekki ófullkomin. Heldur er verið, já, að fjalla um „eðli tungumálsins“; hvernig við túlkum heiminn með því og hvaða víxlverkanir eiga sér stað á milli tungumáls, hefðar, menningar og sögu, hvernig það mótar bæði texta (í víðum skilningi) og þjóðfélag. Málfræðin og sálfræðin fjalla um tungumálið á vísindalegan hátt en bókmenntafræðin á heimspekilegan hátt. Þar er munurinn og það þjónar ólíkum tilgangi, sem ég vil gera jafn hátt undir höfði.
    3. En afbyggingin er samt aðferð. Samkvæmt Derrida er meira sem sundrar texta en sameinar hann, að textinn sé ekki heild. Mig minnir að þetta sé eitthvað þessa leið: Greinandinn reynir að komast að þeim upplausnum sem skapar textann og sýnir þá fram á margar túlkunarleiðir, jafnvel fleiri en aðferðir sem höndla textann sem heild. Ég hef samt velt því mikið fyrir mér hvernig þetta sé mögulegt. Ég hef aldrei reynt við það og ég hef ekki enn hitt neinn bókmenntafræðing sem notar afbyggingu sem aðferð.
    4. Erum við að tala um það sama, hermeneutics? Schleiermacher, Hirsch, Gadamer og félaga? Málfræðin er fjarri góðu gamni þar. Í besta falli gæti hermeneutics fallið undir málvísindi.
    5. Saussure er samt svo beisik, þótt hann hafi opnað fyrir nýjar hugmyndir. Levi-Strauss er maðurinn í strúktúralismanum. Einstaklega hentugur til greiningar á skáldskap.
    Af hverju hjólar enginn í Chomsky? Ætli nokkur þori því?
    Vísindaskáldskapur hefur samt komið fram með framkvæmanlegar hugmyndir, sbr. Arthur C. Clarke með gervihnetti.

  6. Ef bókmenntafræðin fjallar um heimspeki á heimspekilegan hátt, hvað gerir þá heimspekin? Nei, haldið ykkur við bókmenntirnar!
    Kannski er ég bara vesæll rökgreiningarheimspekingur, en vantar ekki Wittgenstein, Frege, Russell, Quine, Searle, Kripke, Putnam, Davidson, Strawson, svo einhverjir séu nefndir, í umræðuna?

  7. Jæa.
    Emil:
    2. Ég er ósammála því að tungumál séu ekki ófullkomin, hið gagnstæða felur í sér nokkuð sem ég á bágt með að ímynda mér. Mér þykir líka einkennilegt ef bókmenntafræðin frumbirtir rannsóknir á tungumálinu í stað þess að einblína á bókmenntir og vitna til rannsókna annarra sér til stuðnings þegar þess þarf við.
    En nú erum við komnir langt útfyrir efnið því ég ætlaði ekki að gagnrýna allar kenningar sem settar hafa verið fram um tungumálið utan málfræðinnar. Ég var fyrst og fremst að hrauna yfir óþolandi tendens til að vitna í eitthvað bull og halda því á lofti sem staðreyndum. Mér finnst sá tendens bitna mikið á málfræði sem vísindagrein, á svipaðan hátt og sálgreining bitnar á sálfræði. Þá er þó ekki þarmeð sagt að ég sé andvígur öllum öðrum athugunum. Ég vildi frekar benda á hættuna sem stafar af því að vera ógagnrýninn á þær athuganir.
    4. Nei, ég sé það eftir á að við erum ekki að tala um sama hlutinn. Ég átti við þau fræði sem einblína á hvernig boðskipti eiga sér stað milli einstaklinga. Chomsky hefur meðal annarra pælt í því og búið til módel af boðskiptum sem sýnir hluti sem ég held hann skorti þekkingu til að fjalla um. En þar sem ég hef ekki þekkingu á því sjálfur ætla ég að sleppa því að gagnrýna hans hugmyndir.
    Að hinstu: þú veist samt alveg hvað ég meina með vísindaskáldskapnum. Hann er ætlaður til skemmtunar, ekki til að fræða lesendur eða umbylta vísindunum. Mér finnst á sama hátt einsog sum fræði reyni að dylja það hversu óvísindaleg þau í raun eru með því að gefa sér hæpnar forsendur til stuðnings enn hæpnari niðurstöðum.
    Þá, svo það komi fram, tel ég ekki að það eigi almennt við bókmenntafræði. En það er margt þar sem er vafasamt en er oft hampað sem heilögum sannleik. Einsog í fleiri greinum líklega.
    Ásgeir:
    Wittgenstein hittir víða naglann á höfuðið í Bláu bókinni. Sumt af því sem ég las þar skildi ég þó ekki, líklega vegna þess að textinn er tyrfnari en hugmyndirnar. Hina karlana hef ég ekki lesið. En það breytir svosem ekki miklu fyrir þessa tilteknu umræðu. Það er aldrei vitnað í hugmyndir þeirra um tungumálið í inngangskúrsum í bókmenntafræði. Mér finnast þeir einkennast meira af upphrópunum á borð við: tungumálið er x! fremur en að vitnað sé beint til fræðimanna.

  8. Hæ!
    Bara stutt hjá mér núna.
    Ásgeir: What´s up? Ég sagði aldrei að bókmenntafræðin fjalli um heimspeki á heimspekilegan hátt (þó afsaka ég að hafa notað orðalagið „heimspekilegan hátt“). Talaði um tungumálið, sem er texti, sem er bókmenntir. Bókmenntafræðin verður að fjalla um tungumálið til þess að geta fjallað um bókmenntir. En öll hugvísindi eru svo nátengd – það er varla hægt að segja einu eða öðru að vera úti.
    Haha, við gætum sleppt því að ræða hlutina og neimdroppaði bara. Það yrði ýkt kúl. Ricoeur, Husserl …
    2. Bókmenntafræðin er vísindi textans og er náskyld málvísindum, enda er þetta alltaf undir sama þaki í öllum háskólum. Báðar fræðigreinarnar verða að atast í hvorri annarri til þess að þróa rannsóknir sínar.
    4. Þar sem gætti misskilnings skulum við ekkert fara með þetta lengra.
    Með vísindaskáldskapinn: Ég veit, hehe, það hefði ekki verið eins flott dýnamík í svarinu mínu ef ég hefði ekki líka verið „ósammála“ síðustu setningunni.

  9. Emil: Ég átti við að ef það er hlutverk bókmenntafræði að fjalla um tungumál á heimspekilegan hátt, hvað er þá hlutverk heimspekinnar? Athugaðu að nánast öll rökgreiningarheimspeki hefur verið málspeki. Samt hefur bókmenntafræðin, sem þykist vera að fjalla um tungumálið, algjörlega leitt hana hjá sér. Ég var ekki að neimdroppa, heldur var punkturinn minn nákvæmlega sá sem Arngrímur segir, að í bókmenntafræði (sem ég þekki til, verð ég að viðurkenna) er ekkert er minnzt á hugmyndir þessara manna um tungumálið.

  10. Ég vil einmitt ekki segja einu að vera úti og öðru ekki, heldur einmitt vil ég að greinarnar atist meira hvor í annarri með þéttu neti tilvísana sín á milli. Mér finnst skorta á það.
    Öll hugvísindi ættu að geta unnið saman að betri niðurstöðum. Frönsku meginlandsspekingarnir uppúr miðri síðustu öld hafa hinsvegar tendens til að þykjast hafa fundið upp hjólið, og mér finnst of mikið byggt á athugunum þeirra.
    Ég er eiginlega að segja að mér finnist vanta eitthvað nýtt í hugvísindi, ný viðmið og nýtt hugarfar. Til dæmis hefur hljóðkerfisfræðingurinn Kristján Árnason mikið rannsakað hrynjandi dróttkvæða. Það er gott dæmi um þann samgang sem ég myndi vilja sjá milli málfræði og bókmenntafræði.

  11. Bókmenntafræðingar líta á tungumálið sem texta og því fara þeir ekki á sama hátt inn á svið málspekinnar eins og rökgreiningarheimspeki. Það þýðir ekki að segja „haldið ykkur við bókmenntirnar“, því skáldskapur er tungumál, mjög mikilvægur partur af því meira að segja. Jafnvel mikilvægari en hið talaða. Bókmenntafræðin gengur ekki út á að hanga yfir myndhverfingum, þótt það sé líka hlutverk hennar, heldur er æðra takmark að greina skáldskapartexta á vísindalegan hátt, komast að sannleikanum bakvið þetta fyrirbæri sem maðurinn skapar í sífellu. Rétt eins og heimspekin vill greina sjálfið.
    Bókmenntafræðin fæst við listform en flest heimspeki við mannveruna og hugsun hennar. Málvísindi og málspeki er ekki það sama, en bókmenntafræðin tekur sitt lítið af hverju þaðan. Það eru fleiri málspekingar en þeir sem þú telur upp, eins og Saussure, Heidegger, Eco og fleiri. Og þetta eru brautryðjendur í kenningum um hvernig við skynjum og skiljum texta (tungumál).
    En ég hef þó lesið greinar eftir fræðinga sem skrifa um skáldskapartexta sem vísa mikið til þeirra nafna sem þú taldir upp. Nú síðast mikilvægar greinar eftir Ricoeur þar sem hann styður sig meðal annars við Austin og Searle.
    Rökgreiningarheimspeki vísar oft til bókmennta og á sama hátt vísar bókmenntafræðin til málspeki. Mér finnst að það sé ekki hægt að hólfa hugvísindin niður í sitt hvert hornið þótt þau beri mismunandi nöfn.
    En já, eins og ég sagði, þá var það rangt af mér að nota orðalagið „heimspekilegan hátt“. Fljótfærni. Ég á frekar við fyrirbærafræðilegan- (eins og ég nefndi í fyrri athugasemdum), málvísindalegan- og/eða textafræðilegan hátt (philology).

  12. Mig grunar að þú sért farinn að svara Ásgeiri alfarið en ég leyfi mér að skjóta örlitlu hérna inn í viðbót:

    Bókmenntafræðingar líta á tungumálið sem texta og því fara þeir ekki á sama hátt inn á svið málspekinnar eins og rökgreiningarheimspeki.

    Ég gagnrýni þetta ekki fyrir tilgang bókmenntagreiningar, heldur það þegar þessi hugmynd er yfirfærð á tungumálið utan bókmenntaverka.

    Bókmenntafræðin gengur ekki út á að hanga yfir myndhverfingum, þótt það sé líka hlutverk hennar, heldur er æðra takmark að greina skáldskapartexta á vísindalegan hátt, komast að sannleikanum bakvið þetta fyrirbæri sem maðurinn skapar í sífellu.

    Einmitt þess vegna er mikilvægt að kanna sem flesta vinkla. Ég segi ekki að enginn geri það en ég gagnrýni þá sem gera það ekki en telja sig samt þess umkomna að tjá sig um „eðli tungumálsins“.

    Rökgreiningarheimspeki vísar oft til bókmennta og á sama hátt vísar bókmenntafræðin til málspeki. Mér finnst að það sé ekki hægt að hólfa hugvísindin niður í sitt hvert hornið þótt þau beri mismunandi nöfn.

    Ég veit ekki hvort Ásgeir fellst á mitt svar, en ég var þegar búinn að svara þessu í síðustu athugasemd. Mér finnst mikilvægt að ólíkar greinar hugvísinda styðji hver aðra í stað þess að vinna gegn, einsog mér hefur fundist helst til algengt. Ég er semsé sammála þessu.

  13. Ah, fyrirgefðu. Þegar ég var að skrifa athugasemdina settir þú inn nýja. Þær birtast með einnar mínútu millibili.
    En ég held við séum brátt að komast að lokum umræðunnar. Ég hef ekki fleira að segja í bili. Nema kannski að hamra á því að margir bókmenntafræðingar vilja meina að það eigi ekki að skilja að tungumál textans frá tungumáli hins talaða. Þetta kallast á við hvort annað. Það er náttúrulega líka þrætuepli innan fræðinnar sjálfrar.

  14. Það er kannski rétt að bæta einu við til að halda því til haga: það eru öðru fremur vissir bókmenntafræðingar sem fjalla um tungumálið, sem aftur kvíslast í afstöðu sinni til þess einsog þú segir.
    Þær hugmyndir eru þó ekki algildar innan bókmenntafræði einsog oft er látið í veðri vaka. Þeir sem rannsaka miðaldatexta hafa til að mynda fæstir mikinn áhuga á eðli höfundarins skv. Barthes o.fl. eða eðli tungumálsins í þeim skilningi sem hér hefur verið rætt um, leyfi ég mér að fullyrða. Ég hef í það minnsta ekki orðið mikið var við slíkar hugmyndir innan þeirra fræða.
    Við skulum því segja að það séu svið innan bókmenntafræði sem fást við þetta frekar en hengja alla bókmenntafræðinga fyrir þann fígúratífa smið sem ég var svo ólmur að krossfesta í þessari færslu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *