Ég hef alltaf jafn gaman að því þegar menntskælingar koma á bókasafnið og biðja um Íslendingasögur á nútímaíslensku. Skelfingarsvipurinn á þeim þegar ég segi þeim að þetta sé nútímaútgáfan.
Ég held það sé of mikið gert úr því að það sé á færi Íslendinga að lesa handritin. Það er það bara almennt ekki. Samt er talað um þetta einsog það sé sambærilegt við að lesa Guðrúnu frá Lundi.
Annars væri skemmtilegt að prufa að láta krakka lesa stafrétta texta. Bara til að prufa.
Sýnishornið sem þú sýnir er stórskemmtilegt. Þar er reyndar búið að lesa úr skammstöfunum, en þegar nánar er skoðað þá er tungumálið það sama og nútímaíslenska, smá beygingarmunur hér og þar og einhver líttskiljanleg orð. Samt margfalt auðlæsilegra fyrir nútíma Íslending en t.d. færeyska.
Kannski er handritalesturinn aðallega vandamál stafsetningar, stafagerðar, skammstafana og skítugra skinna. Frá því sjónarhorni get ég tekið undir með þér að Guðrún frá Lundi er líklega auðveldari en Njála í frumútgáfu.
Já, það er reyndar rétt að þetta er ekki alveg stafrétt. Þetta er samræmd útgáfa. Munurinn á henni og „nútímaútgáfu“ Njálu er því ekki sérlega mikill. Munurinn verður meiri ef við skoðum handritin.
Hér er t.d. varðveitt brot úr Njálu í Möðruvallabók.
Hér er aftur Laxdæla, sem er yngri og læsilegri.
En í grunninn er þetta allt sama málið. Vandinn við handritalestur snýr vissulega að þeim atriðum sem þú nefnir, svo eru önnur atriði sem ég kann ekki nægileg skil á til að nefna. Ég myndi í öllu falli ekki treysta mér til að lesa handritin og túlka svo vel sé.
Auðvitað er erfitt að lesa texta frá tíma áður en nokkuð sem kalla mætti stafsetningu varð til. Ef maður hlustaði á mann, til þess hæfan, lesa þetta upp, þá held ég að flestir ættu ekki í vandræðum að skilja.
Það fer eftir hvað þú meinar. Það er einmitt talið að nútímaíslendingar gætu ekki skilið mælt mál sagnaritaranna (sem raunar má endurgera að nokkru leyti). En ef þetta væri lesið upp miðað við eðlilegan nútímaframburð þá gildir einu hvort lesið er af skinni frá 13. öld eða útgáfu Máls og menningar frá 1998.