Kenningar Einars Pálssonar

Ég hef oft staldrað við bækur Einars Pálssonar um íslenskt þjóðveldi og goðafræði á bókasafninu, velt fyrir mér hvers vegna enginn talaði um þær í íslenskuskor en aldrei árætt að lesa neina þeirra. Þær eru svo margar, efni þeirra svo fjölbreytt (að því er virtist) og titlarnir gáfu ekki beinlínis miklar vísbendingar um innihaldið.

Svo í dag rakst ég á wikipediugrein um Einar Pálsson og sé núna hvers vegna þessar ellefu eða svo bækur eru ekki lesnar spjaldanna á milli við íslenskuskor.

Íslenska goðaveldið í heiðni (930-1000) var hugsað sem endurspeglun himneskrar reglu. Þannig mátti líta á goðana 36 sem fulltrúa himinhrings, og til samans jafngiltu þeir konungi í goðfræðilegum skilningi. Einar taldi að goðarnir hefðu búið yfir hinni goðfræðilegu þekkingu sem fylgdi goðsagnalandslaginu. Einar gerði ennfremur ráð fyrir að germönsk heiðni hefði, líkt og önnur nálæg trúarbrögð, orðið fyrir áhrifum af speki pýþagóringa og platonista um að eðli heimsins, og þar með hins goðlæga hluta hans, væri fólgið í tölum og hlutföllum. Hann hélt því fram að þessi speki hefði legið að baki íslenska goðaveldinu og konungdæmum grannlandanna.

Gallinn við öll svona samanburðarfræði ætti flestum að vera augljós: ef íslenska goðaveldið var hugsað svona, hvar eru þá íslensku heimildirnar fyrir því? Þær eru nefnilega ekki til. Einar gaf sér einfaldlega, útfrá samanburði við samgermanskan menningararf og reyndar allt til Grikklands, að tilteknar hugmyndir – tiltekin heimsmynd – hefði erfst svo að segja óbreytt gegnum aldirnar þjóða á milli. Skoðum þetta nánar:

Mælingakenning Einars var tilraun hans til að sameina (a) það sem vitað er um norræna heiðni; (b) það sem álykta má af sambærilegum heimildum um forn trúarbrögð indó-evrópskra manna; (c) það sem vitað er um stjarnfræðikunnáttu fornþjóða og (d) þá innsýn í norræna goðafræði sem fæst með því að horfa á Íslendingasögurnar sem goðsagnir.

Atriði a) er einmitt það sem við skoðum sérstaklega við íslenskuskor – þær varðveittu heimildir sem til eru um norræna heiðni og hvað þær segja okkur. Rannsóknir á því sviði eru margvíslegar og fjölbreyttar. Atriði b) er svo eitthvað sem mér liggur við að segja að sé út í hött að bera saman við atriði a) til þess að öðlast betri skilning á því síðarnefnda. Það skiptir engu máli fyrir norræna goðafræði hverju var trúað austan við Kákasus fyrir meira en 5000 árum. Ekki frekar en Gilgameskviða segir okkur nokkuð um Snorra-Eddu. Það væri eðlilegt fyrir strúktúralíska rannsókn að setja upp töflu yfir lögmál goðsagna – einsog hefur verið gert – til að benda á að allar goðsagnir fylgi svipuðu mynstri, búi við svipaðar reglur og eigi sér jafnvel einhverja grunnfyrirmynd sem nú er glötuð. En það segir ekki endilega mikið um trú fólks á Íslandi á landnámsöld.

Sama gildir um atriði c), það einfaldlega gagnast okkur takmarkað að velta fyrir okkur stjarnfræðiþekkingu Súmera, Grikkja eða Rómverja í fornöld í því augamiði að varpa ljósi á íslenska menningu á miðöldum. Þar sem vantar heimildir má gera ráð fyrir ýmsu, það má til dæmis gera ráð fyrir að Snorri Sturluson hafi þekkt Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus þótt það standi hvergi. En við getum fjandakornið ekki haldið því fram að vegna stjarnfræðiþekkingar fornþjóða hafi sögusvið Íslendingasagna átt að:

endurspegla himneska reglu og vera jafnframt tímakvarði. Einfaldasta leiðin til þess er að hugsa sér miðju og taka þaðan mið af stjarnfræðilega marktækum punktum á sjóndeildarhring, s.s. höfuðáttum og sólarupprás og sólarlagi um sólstöður. Kennileiti á jörðu niðri sem tengjast þessum stefnum fá þannig goðfræðilega merkingu. Einar gerði ekki aðeins ráð fyrir goðsagnalandslagi af þessu tagi, heldur áleit að stærð þess hafi verið nákvæmlega skilgreind og útmæld. Hann áleit að fornmenn hafi hugsað sér það sem hring sem endurspeglaði sjóndeildarhring og himinhring (dýrahringinn). Þvermál hringsins skipti máli og átti að hafa verið 216.000 fet (um 64 km)

Hvað atriði d) varðar þá sé ég ekki samhengið milli þess að líta á Íslendingasagnir sem goðsagnir – sem þær klárlega eru – og að það segi okkur eitthvað um aðra texta sem bera í sér lítinn skyldleika við hina.

Ég tek fram að ég hef ekki lesið bækur Einars Pálssonar og að það er áreiðanlega margt áhugavert í þeim sem jafnvel gæti skipt máli fyrir íslensk og norræn fræði. En miðað við þessa litlu stikkprufu þá virðist mér afskaplega lítið vera af haldbærum gögnum rökstuddum viðunandi heimildum. Þetta eru bara hugmyndir einsog hver sem er gæti fengið og erfitt eða ómögulegt er að sanna eða afsanna. Og slíkar kenningar bera í sér lítið fræðilegt gildi.

4 thoughts on “Kenningar Einars Pálssonar”

 1. Þetta er eiginlega ekki athugasemd, heldur spurning.
  Af hverju ert þú að miðla fáfræði þinni svona?

 2. Ég skal svara þeirri spurningu ef þú berð hana upp efnislega. Ég nenni ekki að tala við þig ef þú hefur ekkert betra að segja en þetta.

 3. Sæll Arngrímur. Það sem þú segir í lok pistils þíns um kenningar E.P. er lykilatriði: þú hefur ekki lesið bækurnar hans! Þú talar um goðfræðilegar skýringar hans, kenningar Einars lúta að allegórískum vísunum milli landa og þjóða við mörkun lands, byggingar hofa, mustera og síðar i kristni kirkja. Pyþagóras og Nýplatónska eru undirliggjandi. Það er sorglegt en satt að íslenska HÍ mafían hefur löngum dæmt kenningar EP úr leik vegna þess að menn þar á bæ nenna ekki að kynna sér þær. Eða þora ekki að viðurkenna að allt íslensku fræða kerfið hér er byggt á Nordölskum sandi og túlkun (!) Íslendingasagna er byggt á einhverskonar bókmenntalegum Derringi (sic), eða niðurrifsaðferðafræði, sem er gjörsamlega út í hött og eykur engan veginn skilning á sögunum, bakgrunni þeirra, merkingu né uppruna. Nema síður sé. Með alúðarkveðju,H

 4. Mér finnst rangt að tala um HÍ mafíu, hvað þá að einhver meirihluti fylgi þjóðernishyggju Nordals sérstaklega að máli eða að póststrúktúralísk bókmenntafræði Derrida hafi eitthvað að segja um rannsóknaraðferðir í miðaldafræðum. Það er bara ekki rétt.
  Fræðasviðið er langtum stærra en svo að það einskorðist við HÍ og það er þverfaglegt. Hingað til hafa hugmyndir Einars ekki verið staðfestar af óháðum rannsóknum, og þeir fræðimenn sem eru hvað róttækastir, t.d. Jens Peter Schjødt, hafa ekki talið sig hafa forsendur til að ganga eins langt og hann gerir í samanburði milli indóevrópskra trúarbragða. Ekki hafa aðrir helstu fræðimenn sviðsins, t.a.m. Rudolf Simek eða Margaret Clunies Ross, heldur viljað taka undir þær.
  Niðurstöður alþjóðlegra rannsókna á sviði sagnfræði, bókmenntafræði, þjóðfræði, fornleifafræði og trúarbragðafræði benda nefnilega eindregið til þess að heiðin norræn trúarbrögð hafi ekki verið fullmótað kenningakerfi.
  En nú er sannarlega rétt að enn hef ég ekki lesið bækur Einars Pálssonar, þótt það hafi nú staðið til hjá mér. Ég mun þó bæta úr því við tækifæri og kanna rök hans til hlítar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *