Hjá tannlækninum

Ég hef átt það til að fara til tannlæknis síðastliðið ár.

Maður liggur þarna gersamlega varnarlaus í stólnum meðan tannlæknirinn er í keppni við sjálfan sig um hversu mörgum hlutum hann getur troðið upp í mann. Svo getur maður hlustað á útvarpið meðan blóðsletturnar ganga í flóðbylgjum yfir okkur báða.

Mér hættir aldrei að þykja tækin dálítið miðaldaleg þótt öðru máli gegni um tæknina. Svo er alltaf þarna stykkið sem lítur út einsog langur kveikjari með bláa ljósinu á endanum. Voða StarTreklegt. Hvað skyldi það gera? Ég hef alltaf á tilfinningunni að það geri ekki neitt. Sé bara þarna til að imponera sjúklinginn.

Í dag var ég deyfður í fyrsta sinn í hálfan annan áratug. Og hann deyfði mig svo duglega að ég fann ekki neitt. Gat þó brosað útí annað yfir gosbrunninum sem stóð uppúr mér. Svo var líka Lennon í útvarpinu sem er alltaf skemmtilegt.

Eftir tannlæknatímann fór ég í Bakarameistarann í Glæsibæ, sem er hvorki glæsilegur né þykja mér afurðir bakarans neitt sérlega meistaralegar. Ég keypti mér ciabatta með spægipylsu og allskyns jukki og kaffi með. Ég átti í vandræðum með að koma kaffibollanum uppað vörunum þarsem ég hafði enga tilfinningu í hálfu andlitinu og lék mér svo að því að finna bragðmuninn á samlokunni milli hægri og vinstri hliðar meðan innihaldið lak úr munnvikunum niður á Fréttablaðið mitt.

Á næsta borði sátu tvær konur og barn. Og barnið spurði þær varfærnislega af hverju maðurinn þarna væri svona skrýtinn. Og ég fékk samúðarfyllsta augnaráð sem ég hef fengið frá þeim öllum þarsem ég sat þarna með sósu makaða yfir andlitið og kaffi drjúpandi niður um lama munnvikið.

Og leið dálítið asnalega. Það var líka áður en ég tók eftir því að það blæddi ennþá úr tannholdinu á mér eftir aðfarirnar. Ég mun ekki beinlínis hafa verið frýnilegur. Þegar ég kom í vinnuna snerist þetta svo algerlega við. Þar var hlegið að mér. Mér leið eiginlega betur með það.

Þessi saga kostaði 15.000 krónur. Framlög yfir 500 krónum eru frjáls. Sendist í umslagi á Suðurgötu 78, 220 Hafnarfirði. Nei, ég nota ekki heimabanka. Það er nóg að bankarnir tortími þjóðfélaginu án þess ég hafi þá heim með mér líka.

2 thoughts on “Hjá tannlækninum”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *