Heimurinn þá og nú

Ég man eftir að mér hafi verið sagt frá því þegar ég var barn að öðruhvorumegin við 1980 hafi margmenni þust að Heklurótum til að verða vitni að eldgosi. Ég sá fyrir mér ungt háskólafólk í drapplitum lopapeysum og joggínggöllum lulla þetta á ryðbrúnu ópelunum sínum og fíötum til að vera innanum fimmtuga bartaða fréttamenn með hornspangargleraugu á köflóttum jakkafötum. Allir pollrólegir og prúðir, og allt heldur leiðinlegt og grátt (einsog allt var áður en ég fæddist, sama hversu skömmu áður, og ljósmyndir fannst mér staðfesta hversu grátt allt var þá).

Aldrei í lífinu gat ég ímyndað mér annan eins heimatúrisma einsog varð kringum gosið á Fimmvörðuhálsi, fólk vaðandi þetta á skyrtunni, drekkandi, takandi ljósmyndir. En sjálfsagt var þetta alveg eins við Heklugosið forðum. Að minnsta kosti get ég ekki ímyndað mér að Íslendingar hafi breyst neitt meira á síðustu 30 árum en þeir gerðu næstu 1000 ár á undan. En svona virkar hugur barnsins. Nú er þessi heimsmynd aðeins dofin minning. En þó gleðst ég alltaf inní mér þegar ég sé þætti einsog Stiklur Ómars Ragnarssonar. Þar í er hún varðveitt, sú hugmynd sem ég hafði um Ísland áður en ég varð til. Land gamallra karla, ryðgaðra bíla og ljótra fata.

Ég svolítið sakna þess Íslands, þótt það hafi kannski aldrei verið til einsog ég sá það fyrir mér.

3 thoughts on “Heimurinn þá og nú”

  1. Mér hefur lengi þótt einsog það sé hálf-bannað að vera nostalgískur á íslandi (auðvitað á íslensku líka!) en ég er svo hinumegin að ég tek undir. Öllu fer aftur!

  2. Ég er óskaplega nostalgískur. Annars má bæta þrennu við:
    1. Gosið var víst einmitt árið 1980.
    2. Næsta gos þar á undan var 1970 og það sagði mér kona á bókasafninu var svo sannarlega túristagos (svo það er amk 40 ára hefð fyrir þessu).
    3. Myndinni stal ég skammarlaust af snjáldurskinnu bróður míns. Hann er krúttsprengjan með loðhúfuna.

  3. Ég lifi fyrir nostalgíu – ég myndi visna upp og deyja ef ekki væri fyrir nostalgíu! o_O
    Ég kemst ekki í gegn um daginn án þess að spila 8-bita tölvuleik, horfa á gamlar heimildarmyndir eða teiknimyndir – einstaka sinnum kemst ég svo á fornar slóðir barmafullar af minningum – þá er ég kátur. 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *