Að hvarfla aftur

Í umræðu um psýkósómatískt óþol mitt gagnvart Egilsstöðum (ég er ekki að grínast, ég fæ útbrot í fimm kílómetra radíus frá bænum og veit ekki af hverju) rifjaðist upp fyrir mér að í ágúst hef ég búið í Hafnarfirði í þrjú ár. Það er nokkuð sérstök tilfinning og ekki laus við stöku endurlit þegar það er við hæfi.

Þótt það muni breytast á næstu árum hef ég varið lengstum tíma mínum í háskólanámi í Hafnarfirði. Ég er orðinn eignamaður (á bíl) en það stendur allt til bóta. Ég hef aldrei haft hug á að eiga neitt meira en það sem ég kem fyrir í einni ferðatösku. Allt umfram það stendur mér fyrir þrifum og það er hjákátlegt að hafa unnið fjögur ár á bókasafni af hugsjón og eiga svo heilt bókasafn sjálfur sem ég þarf einhvern veginn að flytja þegar þar að kemur. Þegar það verður kvöð að flytja hefur maður gert einhverja skissu.

Fyrst og fremst er þriggja ára dvöl mín í Hafnarfirði táknræn í mínum huga fyrir öll þau sambönd sem ég hef myndað síðan ég fluttist hingað. Það er ekki götuhorn hérna í næsta nágrenni sem ég tengi ekki við einhvern atburð eða tilfinningu, veturinn 2008-2009 var í mínu lífi einsog svo margra annarra mesti umbrotatíminn og ég tengi óramargt hér bara við þann vetur, sem leið í senn hjá svo silalega og svo hratt. Tengingar við Vesturbæinn sem ég bjó í þaráður hafa einnig verið tíðar síðan ég flutti hingað, sem brúar bilið milli þess liðna og þess líðandi.

Af þessum sökum er margt í Hafnarfirðinum sem ég hef lært að þykja vænt um og jafnframt margt sem vekur upp hlýjar minningar. En þau eru líka einu áhrifin sem Hafnarfjörðurinn hefur á mig; allt það sem hér stendur í stað andspænis öllu hinu sem breyttist í mér á þessum tíma. Hafnarfjörður er ekki bær til að halda áfram í mínum huga, heldur bær til að hvarfla aftur.

Það er merkilegt með bæi hvernig þeir hafa þessi ólíku áhrif á mann. Það er ekki maður sjálfur og hvað maður finnur sem er aðalatriðið, heldur eru það áhrifin sem bærinn hefur á mann sem lifandi veru sem vekja upp viðeigandi tilfinningar. Svo eru til staðir sem maður getur ekki komið nærri, einsog Egilsstaðir. Árósar er akkúrat ekki borg til að líta mikið aftur í, þar finn ég fyrir stöðugri framþróun. Hér er ég í stöðugu endurliti. Reykjavík og svo Kaupmannahöfn standa báðar þarna á milli. Þær eru borgir múltítasksins. Kannski ekki síst þess vegna ákvað ég fyrir tæpu ári að fara héðan, hér er ekkert eftir nema líta aftur.

Í ár er jafnframt tilefni til af tveim ástæðum:

1) Ég er að fara til Danmerkur.
2) Það eru 10 ár í haust síðan ég tók það skref sem langflestir taka að hefja nám við framhaldsskóla, skref sem reyndist mér heilladrjúgt á svo marga vegu að sjálfsagt tjóir aldrei að reyna að telja upp öll þau atriði sem gerðu mig að þeim manni sem ég er í dag.

Þess vegna hef ég hugsað mér að reyna að líta aftur stöku sinnum í sumar og rifja upp markverð atriði sem flestum má hlæja að eftirá. Þannig ætti líka að fara um öll okkar verk. Ef það má ekki hlæja að þeim voru þau kannski aldrei þess virði.

Það er ástæða fyrir því að ég nefni ekki nostalgíu eða fortíðarþrá neinstaðar hér. Nostalgía er b-hugtak sem er jafnharðan afskrifað undir eins og það er sett fram og fortíðarþrá nær engan veginn utanum tilfinninguna, enda þrá líklega fáir það limbó að eiga að endurlifa eigin fortíð. Það er líka annað að endurlifa og segja frá. Ég lofa engu.

Mynd: Þrándur Arnþórsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *